Afrán

Ég staldraði í dag við fyrirsögnina „Afrán hvala tvöfaldast á þessari öld“ á mbl.is. Ég hef svo sem oft séð orðið afrán áður, en fór að velta merkingu þess og notkun fyrir mér. Orðið er hvorki í Íslenskri orðabók Íslenskri nútímamálsorðabók en er í orðasafninu Sjávarútvegsmál í Íðorðabankanum. Þar kemur fram að ensk samsvörun þess sé predation en það orð er skýrt 'the fact that an animal hunts, kills, and eats other animals' eða 'sú staðreynd að dýr veiðir, drepur og étur önnur dýr'. Samheiti þess sé át, enda segir í fréttinni: „Í skýrslu sem kom út árið 1997 var lagt mat á afrán hvala á þeim tíma og var niðurstaðan þá sú að hvalirnir ætu um sex milljónir tonna af sjávarfangi […] Sambærilegar tölur nú eru 13,4 milljónir tonna af sjávarfangi […].“

Orðið afrán virðist vera um 50 ára gamalt – elsta dæmi sem ég finn um það er í Frey 1976, þar sem vitnað er í grein eftir Agnar Ingólfsson frá 1973: „hið tiltekna fæðumagn setur stofnum þeirra mörk, en afrán ránfugla og annarra rándýra skiptir þar litlu sem engu máli.“ Í Ægi 1979 segir: „einkum vegna afráns ránfiska á fæðufiskum sínum.“ Í Náttúrufræðingnum 1980 segir: „Afrán hrafna kann því að vera ástæðan fyrir tilfærslu kríuvarpsins.“ Í Tímanum 1982 segir: „Hinsvegar telur Karl Skírnisson erfitt að dæma um áhrif afráns minks á fiskframleiðslu í ferskvatni.“ Í Degi 1992 segir: „Rannsóknir á afráni sjófugla á nytjastofnum verði stórauknar.“ Í Ægi 1992 segir: „Það er erfitt að meta nákvæmlega áhrif afráns sela á veiðar nytjastofna.“

En flest dæmi frá þessari öld eru um afrán hvala. Í Fiskifréttum 2000 segir: „Afrán hvala og annarra sjávarspendýra á fiskistofnunum hafi hins vegar farið mjög vaxandi og því beri brýna nauðsyn til þess að hefja hvalveiðar að nýju.“ Í Morgunblaðinu 2001 segir: „Það gefur augaleið að hóflegar hvalveiðar myndu draga úr afráni hvala.“ Í Morgunblaðinu 2002 segir: „Útvegsmenn á Hornafirði krefjast þess einnig að hvalveiðar verði þegar hafnar af krafti og þannig dregið úr afráni hvala úr fiskistofnunum.“ Í Ægi 2002 segir: „Afrán hvala úr fiskistofnunum nemur til lengri tíma litið margföldum tekjum af hvalaskoðun.“ Í DV 2003 segir: „afrán hvala úr lífríkinu hefur mikil áhrif á möguleika okkar til fiskveiða.“

Það er alveg ljóst af þessum dæmum að afrán uppfyllir ekki þá grundvallarkröfu sem gera verður til íðorða að þau séu hlutlaus. Notkun orðsins á augljóslega að koma því inn hjá lesendum að hvalirnir séu að ræna af okkur – ýmist beint með því að éta fisk eða óbeint með því að éta átu sem fiskurinn æti ella. Jafnvel mætti ætla að verið væri að venja lesendur við þetta orð í Morgunblaðinu 1995: „Við Gísli Víkingsson höfum lagt mat á fæðunám eða afrán hvala.“ Auðvitað væri eðlilegt að tala um át eða fæðunám – það eru hlutlaus orð. Það skiptir ekki máli hvaða skoðun við höfum á hvalveiðum – gildishlaðin og skoðanamyndandi orð eins og afrán á ekki að nota, allra síst í umræðu um viðkvæm deilumál eins og hvalveiðar eru.