Að lifa eins og blóm í eggi

Í Málvöndunarþættinum sá ég bent á – ekki í fyrsta skipti – að algengt væri að tala um að lifa eins og blóm í eggi þegar átt væri við blómi í eggi. Í eðlilegum framburði fellur áherslulaust sérhljóð reyndar ævinlega brott í enda orðs ef næsta orð hefst á sérhljóði og þess vegna er útilokað að greina milli blóm í eggi og blómi í eggi í töluðu máli, en oft er gerð athugasemd við rugling í riti. Í Skírni 1975 segir Helgi J. Halldórsson: „Oft heyrist sagt og sést ritað að lifa eins og blóm í eggi. En það er auðvitað ekkert blóm í egginu heldur blómi, kk., vb., þ.e. rauðan.“ Á barnasíðu Morgunblaðsins 1997 segir: „Blómi getur merkt eggjarauða og það er alls ekki verið að tala um eitt einasta blóm þegar sagt er blómi í eggi – alls ekki segja né skrifa blóm í eggi.“

En hér er ekki allt sem sýnist. Í Merg málsins segir Jón G. Friðjónsson: „Elsta og jafnframt algengasta mynd orðatiltækisins er frá 18. öld: lifa sem blóm í eggi […] en afbrigðið með blómi er kunnugt frá síðari hluta 20. aldar […]. Líkingin er dregin af eggi en eggjarauðan nefnist blóm, hk. og blómi, kk.“ Afbrigðið blómi í eggi er reyndar eldra en Jón telur – elsta dæmi um það er í Ísafold 1908: „Hér hefir þú lifað, Stafa, eins og blómi í eggi.“ Hvorugkynsmyndin blóm í þessari merkingu er a.m.k. frá fyrri hluta 18. aldar – elsta dæmi um hana er í Fjórðu bók um þann sanna kristindóm eður náttúrunnar bók eftir Johann Arndt frá 1732: „og líkja þeir þeim við eitt egg, í hverju að fyrst er það hvíta, og síðan blómið, sem situr mitt í því hvíta.“

Karlkynsmyndin blómi í þessari merkingu er mun yngri – ég hef ekki fundið eldri dæmi um hana en áðurnefnda setningu í Ísafold 1908, og hún er ekki gefin í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 – þar er sambandið lifa eins og blóm í eggi hins vegar undir blóm sem sagt er notað í merkingunni 'Blommen i et Æg' í talmáli. Í Íslenskri orðsifjabók segir: „Merkingin 'eggjarauða' í ísl. orðunum blóm og blómi er vísast tökumerking úr dönsku.“ Líklegt er að síðarnefnda orðið hafi fengið þessa merkingu vegna misskilnings á sambandinu blóm í eggi – vegna samfalls í framburði hafi málnotendur getað skilið það svo að þar væri um að ræða orðið blómi sem er gamalt í málinu í samböndum eins og vera í blóma lífsins, standa með blóma o.fl.

Trúlegt er að fólk hafi fundið merkingarlegan skyldleika með þessum samböndum og sambandinu lifa eins og blóm í eggi og það sé ástæðan fyrir þeirri lífseigu skoðun að blómi sé „réttara“ en blóm í þessu sambandi. Eðlilega er fólk yfirleitt með í huga hina venjulega merkingu orðsins blóm, '(skrautlegur) hluti plöntu eða trés', '(potta)planta', eins og orðið er skýrt í Íslenskri nútímamálsorðabók, og finnst hún ekki eiga við. Enda hefur orðið ekki þá merkingu í þessu sambandi, en vegna þess að það kemur aldrei fyrir annars er ekki við því að búast að málnotendur átti sig á því hvaða merkingu það hefur þarna. En þótt blóm í eggi sé ótvírætt upphaflegra en blómi í eggi er vitaskuld komin hefð á síðarnefndu gerðina líka.

Hitt er svo annað mál að þótt enginn vafi sé á að í sambandinu lifa eins og blóm í eggi hafi blóm upphaflega merkinguna 'eggjarauða' er trúlegt að nútíma málnotendur skilji þetta yfirleitt svo að þarna merki blóm '(skrautlegur) hluti plöntu eða trés' – þau sem telja blóm í eggi rangt nota þann skilning sem rök fyrir því að myndin blómi sé sú rétta eins og fram kom í upphafi. Þau sem nota blóm í eggi þrátt fyrir þennan skilning láta það væntanlega ekki trufla sig að þetta sé ekki „rökrétt“ – enda er engin ástæða til þess. Í málinu úir og grúir af orðum og orðasamböndum sem strangt tekið eru ekki „rökrétt“ eða hafa „brenglast“ eða „afbakast“ á ýmsan hátt – en við notum þau samt vandræðalaust, af því að þau hafa öðlast hefð og við vitum hvað þau merkja.