Hinsti

Lýsingarorðið hinsti / hinstur er um margt sérkennilegt og miklar takmarkanir eru á notkun þess – beygingarlegar, setningafræðilegar og merkingarlegar. „Eins og mörg önnur lýsingarorð, sem tákna stefnu í tíma eða rúmi, er það ekki haft í frumstigi“ segir Gísli Jónsson í Morgunblaðinu 1995. Sum orð þessarar merkingar eru til bæði í miðstigi og efsta stigi, eins og efri efstur, neðri neðstur og síðari síðastur; sum þeirra eru aðeins til í miðstigi, svo sem hægri og vinstri; og enn önnur eru aðeins til í efsta stigi, svo sem næstur og fjærstur. Sama gildir um hinstur – miðstigið hindri er vissulega gefið upp í orðabókum fornmáls en kemur mjög sjaldan fyrir þar og aldrei í nútímamáli. Í Íslenskri orðabók er það gefið upp en sagt „fornt/úrelt“.

Orðið kemur nær eingöngu fyrir hliðstætt, í veikri beygingu – hinsti dagur, hinsta för, hinsta sinn – enda er hinsti flettiorð í Íslenskri nútímamálsorðabók og vísað á hinstur. Orðið er nær aldrei haft í stöðu sagnfyllingar – við segjum varla *hann var hinstur, *hún var hinst, *það var hinst þótt við getum sagt hann var síðastur, hún var síðust, það var síðast. Dæmi um sterku beyginguna á tímarit.is eru sárafá og flest úr skáldskap, krossgátum eða beinlínis umfjöllun um orðið hinstur. Aðeins í undantekningartilvikum eru þau úr samfelldu máli, eins og „En einhver stundin verður hinst“ í Morgunblaðinu 2008. Aftur á móti er slæðingur af dæmum um atviksorðið hinst sem ekki er í orðabókum nema Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924.

Í Íslenskri orðabók er hinstur skýrt 'aftastur, síðastur', í Íslenskri samheitaorðabók er síðastur gefið upp sem samheiti við hinstur, og í Íslenskri nútímamálsorðabók er orðið skýrt 'síðastur'. Notkunardæmin gefa samt vísbendingu um að þessi merkingarlýsing sé ekki nógu nákvæm. Í Íslenskri orðabók er dæmið hinsta kveðja, í Íslenskri samheitaorðabók er það til hinstu stundar, og í Íslenskri orðabók eru dæmin hann barðist hetjulega til hinstu stundar, hennar hinsta ósk var að vera jörðuð við hlið manns síns og þau kvöddust í hinsta sinn á brautarpallinum. Það er varla tilviljun sem ræður þessu vali notkunardæma – þau benda eindregið til þess að hinsti merki ekki bara 'síðasti', heldur felist í orðinu einhvers konar endanleiki sem oft tengist dauða.

Lausleg athugun á textum í Risamálheildinni staðfestir þetta. Meira en ¾ af dæmum um hinsti er úr minningargreinum Morgunblaðsins og megnið af því sem eftir stendur er af svipuðum toga. Á eftir hinsti koma langoftast nafnorð eins og sinn, kveðja, stund, hvíla, dagur, för, ferð, ósk, svefn, vilji, kall o.s.frv. sem vísa eindregið til andláts. Vissulega eru dæmi um annað – „Síðustu Debenhams verslanirnar lokuðu í hinsta skipti í gær, laugardag“ segir t.d. í Viðskiptablaðinu 2021, „Geimskutlan Discovery tók á loft í hinsta skipti í dag“ segir í Morgunblaðinu 2012, o.fl. En fyrirsögn á mbl.is í gær, „Hinsta heimsókn Guðna innanlands í embætti“ var samt í ósamræmi við málhefð þótt ekki sé hægt að segja að hún sé beinlínis röng.