Slys gerast og þess vegna heita þau slys
Í viðtali við Ríkisútvarpið vegna seiðastroks úr laxeldisstöð í Öxarfirði sagði framkvæmdastjóri fiskeldis Samherja: „Slys gerast og þess vegna heita þau slys.“ Mér fannst þetta dálítið sérkennilegt orðalag – af því má ráða að sjálft orðið slys skýri á einhvern hátt það sem gerðist. En orðið slys er ekki gagnsætt, í þeim skilningi að merking þess verði ráðin af gerð þess – við þurfum að læra merkinguna sérstaklega. Samkvæmt Íslenskri orðsifjabók er það komið af germanskri rót sem merkir 'vera slakur, renna til'. Í nútímamáli hefur slys tvær merkingar eins og fram kemur í Íslenskri nútímamálsorðabók – annars vegar 'atburður sem veldur alvarlegum meiðslum eða dauða' og hins vegar 'óhapp' sem er augljóslega sú merking sem hér á við.
Ef framkvæmdastjórinn hefði notað samheitið óhapp í stað slys og sagt Óhöpp gerast og þess vegna heita þau óhöpp hefði gegnt öðru máli, vegna þess að óhapp er gagnsætt orð í þeim skilningi að við getum leyst það upp og tengt einstaka hluta þess við eitthvað sem við þekkjum úr öðrum orðum – neitunarforskeytið ó- og nafnorðið happ. Það er að sjá að fleiri en mér hafi þótt orðalagið sérkennilegt því að þótt viðtalið sé að mestu birt orðrétt á vef Ríkisútvarpsins var framangreindri setningu breytt – á vefnum segir: „Slys gerast og þetta var slys“ í stað „og þess vegna heita þau slys“. Breytta orðalagið er eðlilegra, en svo sem engin skýring á því sem gerðist frekar en hitt enda augljóslega ætlað til að afsaka atburðinn frekar en skýra hann.