Fleirri og meirri

Í morgun var hér spurt hvers vegna væru stundum tvö r í fleiri, þ.e. fleirri. Sá framburður (og ritháttur) er ekki nýr – oft er því haldið fram að hann sé sunnlenskur, en gömul dæmi um hann eru þó til úr öðrum landshlutum. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín frá því í byrjun 18. aldar segir: „Sveitarómagar á Barðaströnd eru 28 að tölu. Þó von til fleirra.“ Í þýðingu séra Jóns Þorlákssonar á Bægisá á „Messíasi“ eftir Klopstock segir: „Nú án návistar / nokkurra fleirri.“ Í Íslands árbókum Jóns Espólin segir: „Fleirri urdu og giörníngar“ og „fleirri manna er fylgdu Byrni Gudnasyni“. Enginn þessara höfunda var Sunnlendingur en þó er ekki ástæða til að efast um að framburðurinn hafi einkum verið áberandi á Suðurlandi á seinni hluta 19. aldar.

Í grein eftir Guðrúnu Kvaran í Íslensku máli 2007 er vitnað í orðasafn sem Jónas Jónasson frá Hrafnagili safnaði í Rangárvallasýslu á árunum 1884-1885. Þar kemur fram að Jónas hafi „tekið eftir að Rangæingar segðu fleirri í stað fleiri“. Guðrún bendir einnig á að Hallgrímur Scheving hafi skrifað í bréfi til Konráðs Gíslasonar 1854: „Aftur er það merkilegt, að Rangvellingar […] segja fleirri […] fyrir fleiri.“ Í skýringum við aðra útgáfu á Þjóðsögum Jóns Árnasonar kemur fram að í handritum Jóns Sigurðssonar í Steinum undir Eyjafjöllum standi iðulega fleirra / fleirri. Í leiðréttingum og viðbótum aftast í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 stendur við margur: „comp. ogs. fleirri [flɛiːrɪ]“, en bætt við innan sviga „(Sl.)“, þ.e. Suðurland.

Á síðustu öld voru iðulega gerðar athugasemdir við þennan framburð. Í Þjóðviljanum 1954 er fundið að framburði fréttamanns: „Hann sagði síðast […] „fleirra“.“ Þessi hljóðstytting er eitthvað að ryðja sér til rúms, […] og þarf að stinga þar fótum við.“ Í Þjóðviljanum 1963 segir í tónlistargagnrýni: „Hitt er víst, að hann söng „fleirri“ í staðinn fyrir ,,fleiri“ í fyrsta íslenzka laginu, og er það eigi fagur framburður.“ Í Lesbók Morgunblaðsins 1988 segir: „Fréttamenn komast upp með slappt tungutak, bæði í orðavali og framburði (ég nefni aðeins „fleirri“ í stað „fleiri“).“ Og í Málfarsbankanum segir: „Athuga að rita ekki „fleirri“.“ En Gísli Jónsson var á annarri línu og sagði í þættinum „Íslenskt mál“ í Morgunblaðinu 1980:

„Svo er það „hið sunnlenska fleirri“. Þó að sú orðmynd falli ekki í minn smekk, get ég ekki annað en viðurkennt að hún er í fullu samræmi við þá breytingu málsins sem menn hafa látið sér lynda. Hljóðið r tvöfaldast (lengist) á eftir löngu áherslusérhljóði og undan stuttu áherslulausu sérhljóði, ekki aðeins í miðstigum lýsingarorða, heldur nokkru víðar. […] Enginn segir lengur að einn sé stæri en annar, og enginn segir þeiri konu. Allir segja nú orðið þeirri. Nákvæmlega sama er að gerast í miðstiginu fleiri. […]. Þó að mér þyki ekki fagurt að segja fleirri, viðurkenni ég fúslega réttmæti þessa framburðar af sögulegum ástæðum […]. Mér finnst fráleitt að býsnast yfir því að Sunnlendingar tali svo […].“

En Gísli bætir við: „Mér virðist og engin hreyfing vera komin á miðstigið meiri, hvorki hér né þar, hvað sem því veldur.“ Þetta er þó ekki alveg rétt – meirri kemur fyrir í nokkrum kveðskapardæmum í fornu máli og er uppflettimynd í Lexicon Poeticum. Í Altnordisches Lesebuch eftir Friedrich Pfeiffer frá 1860 er myndin meirri gefin upp sem miðstig við hlið meiri og kemur t.d. fyrir í Áns sögu bogsveigis: „Björn var í hinni meirri bóndatölu norðr þar.“ Nokkur önnur dæmi eru í Fornaldarsögum Norðurlanda. Í áðurnefndri þýðingu Jóns á Bægisá á Messíasi segir: „svo at sjálfs hans dýrð / sé þess meirri!“ og í þýðingu Jóns á Paradísarmissi Miltons segir: „at hann eigi var / öllum meirri“ og „heldur verðr heiðr / hans at meirri“.

Á tímarit.is eru samtals 125 dæmi um meirri og meirra, allt frá áttunda áratug nítjándu aldar til nútímans, og dreifast nokkuð jafnt á áratugi – sem þýðir að myndirnar hafa verið hlutfallslega algengari áður fyrr því að textamagnið var þá miklu minna. Í Risamálheildinni eru tæplega 280 dæmi um þessar myndir, t.d „Meirra veiddist einnig nú af ýsu og ufsa“ í Morgunblaðinu 2001 og „Nú spila ég á miðjunni hjá Manchester United og átta mig á að ég hef enn meirri ábyrgð“ á fótbolti.net 2005. En annars eru nær öll dæmin af samfélagsmiðlum, t.d. „Ég segi að það eru meirri kröfur núna en voru þegar ég var að alast upp“ á Bland.is 2011 og „Þeir vilja líklega bara losa sig við tollana og skattana til að græða meirra“ á Málefnin.com 2013.

Það er því ljóst að meirri og meirra er eitthvað notað í óformlegu máli þótt það komist ekki í hálfkvisti við fleirri og fleirra en um þær myndir eru á sextánda þúsund dæmi í Risamálheildinni, einnig langflest af samfélagsmiðlum. Það má spyrja hvers vegna fleirri / fleirra sé svo miklu algengara en meirri / meirra sem heimildir virðast þó benda til að sé eldra. Við því hef ég ekki svar en e.t.v. hafa merkingartengsl við færri þarna einhver áhrif. Hvað sem því líður er ljóst að bæði fleirri / fleirra og meirri / meirra eru myndir sem við er að búast út frá almennri hljóðþróun. Vegna aldurs og útbreiðslu er fráleitt að amast við fyrrnefndu myndunum, en spurning hvort þær síðarnefndu ná því að geta talist málvenja og þar með rétt mál.