„Við höldum að þetta byrjaði þarna“
Í dag var hér spurt hvort dæmi eins og „við höldum að þetta byrjaði þarna“ í frétt á mbl.is séu „orðin viðtekin íslenska“ – fyrirspyrjandi sagðist sjá þessa setningagerð oftar og oftar. Samspil hátta og tíða í aukasetningum við merkingarflokka sagna í aðalsetningum er of flókið til að hægt sé að fara mikið út í það á þessum vettvangi og vísast þar í bókina Setningar eftir Höskuld Þráinsson – þriðja bindi Íslenskrar tungu. Það sem hér skiptir máli er að í hefðbundinni íslensku verður að hafa viðtengingarhátt af hjálparsögninni hafa og lýsingarhátt þátíðar af aðalsögninni í slíkum setningum – við höldum að þetta hafi byrjað þarna. En setningar af þeirri gerð sem vitnað var til í upphafi virðast þó vera orðnar mjög algengar, einkum í óformlegu málsniði.
Á Bland.is 2002 segir: „Ég held að þetta var eiginlega mest fyrir mig.“ Á Bland.is 2005 segir: „Svo ég held að hann var í dag bara að gera hetjudáð.“ Á Bland.is 2011 segir: „Við höldum að þetta var brekkubobbi.“ Á Hugi.is 2002 segir: „Ég held að hann var að svindla.“ Á Hugi.is 2004 segir: „Held að þetta var barnabók sem hann skrifaði fyrir krakkana sína.“ Á Málefnin.com 2006 segir: „Ég held að hún var bara að hræra í þér.“ Á Málefnin.com 2012 segir: „Ef hún segir að þetta var allt uppspuni lendir hún sjálf í vandræðum.“ Á Twitter 2013 segir: „Held að það var tekin mynd af mér á ballinu.“ Á Twitter 2019 segir: „Ég held að þetta var eini skynsamlegi leikurinn í stöðunni.“ Á Twitter 2020 segir: „ég held að það var í marsmánuði.“
Ýmis dæmi úr formlegra málsniði má þó finna. Í Vísi 2010 segir: „Eva segir að hún var lögð í einelti í skóla.“ Í Vísi 2020 segir: „ég held að hann var að fá þarna minna en milljón á ári.“ Í DV 2011 segir: „Eiríkur Bergmann Einarsson stjórnmálafræðingur segir að það var von á því að fylgi Besta flokksins myndi minnka.“ Í DV 2021 segir: „Ég held að þetta var bara eitthvað svona.“ Á fótbolti.net 2006 segir: „Ég held að þetta var erfiðasti leikurinn okkar á tímabilinu.“ Á fótbolti.net 2020 segir: „ég held að hann var sáttur með frammistöðuna.“ Á mbl.is 2017 segir: „Ég held að hann var alveg á því að hann átti að fá víti.“ Á vef Ríkisútvarpsins 2018 segir: „Hún segir að það var í fyrsta sinn sem lagt er fram minnisblað um náðun til allra ráðherra.“
Vegna þess að þessi setningagerð er einkum bundin við óformlegt mál er erfitt að átta sig á upphafi hennar, en dæmi af samfélagsmiðlum sýna þó að hún var a.m.k. tilkomin upp úr aldamótum. Einn þátttakenda í umræðu um fyrirspurnina sem vísað var til í upphafi sagði „Ég gæti trúað því að þetta séu lúmsk áhrif frá ensku“ og það er ekki ótrúlegt – í samsvarandi setningum á ensku er notuð einföld þátíð en ekki hjálparsögn og lýsingarháttur þannig að setningin sem vitnað var til gæti verið we think it originated there á ensku. Annar þátttakandi sagði: „Ætla að slengja því hér fram sem tilgátu að flestir undir fertugu tali og skrifi svona.“ Hvað sem um það er sýnist mér að þetta sé orðið svo útbreitt að því verði vart snúið við.
Kannski er ekki heldur ástæða til þess. Þótt útbreiðslu þessarar setningagerðar á tuttugustu og fyrstu öld megi hugsanlega rekja til enskra áhrifa er nefnilega nokkuð um keimlíkar setningar í fornu máli. Í Grettis sögu segir: „Þrándur segir að hann var bróðir Eyvindar austmanns.“ Í Heiðarvíga sögu segir: „Hann segir að hann var þar.“ Í Reykdæla sögu segir: „Vémundur segir að hann var nú eftir sendur fanginu.“ Í Heimskringlu segir: „Karl svarar að hann var áður ráðinn að fara til Leifs.“ Í Sturlungu segir: „Prestur og allir heimamenn segja að hann var brott riðinn.“ Í Heimskringlu segir: „Konungur spyr hvort það var Knúts konungs gjöf.“ Það má svo auðvitað deila um hvort þetta dugi til að sættast við svipaða setningagerð í nútímamáli.