Klæð(n)ing

Nýlega var athygli mín vakin á því – sem ég hafði aldrei tekið eftir – að Vegagerðin notar jafnan orðið klæðing í staðinn fyrir klæðning sem er almennt notað og skýrt 'lag sem vegur er þakinn með' í Íslenskri nútímamálsorðabók. Þar er einnig að finna orðið vegklæðning sem er skýrt 'efsta slitlag á vegi'. Myndin klæðing er ekki í bókinni en hana er hins vegar að finna í Vegorðasafni í Íðorðabankanum þar sem hún er skýrð 'þunnt slitlag, blanda af bikbindiefni og steinefni'. Bæði -ing og -ning eru algeng viðskeyti kvenkynsorða og mynda verknaðarorð af sögnum – klæð(n)ing getur merkt 'það að klæða' og hægt væri að segja klæðning vegarins tók skamman tíma. En oft fá þessi orð líka hlutstæða merkingu, í þessu tilviki 'afurð verknaðar'.

Í Íslenskri orðsifjabók kemur fram að myndin -ning sé komin af -ing en -n-ið sé komið úr sögnum sem enda á -na (t.d. vakna vakn-ing) og lýsingarháttum sem enda á -inn (t.d. telja talin-ing > taln-ing). Málnotendur fara svo að skynja -n-ið sem hluta viðskeytisins (vakn-ing > vak-ning, taln-ing > tal-ning) og til verður nýtt sjálfstætt viðskeyti, -ning, sem notað er í sömu merkingu og -ing og hægt er að bæta við aðrar sagnir en þær sem hafa n í grunnmyndinni, svo sem klæða klæðning.  Það er því ljóst að klæðing og klæðning eru jafngild orð, bæði mynduð í fullkomnu samræmi við íslenskar orðmyndunarreglur en sitt með hvoru viðskeytinu. Orðin virðast vera álíka gömul í málinu en lengi framan af einkum notuð um klæð(n)ingu húsa.

Elsta dæmi sem ég finn um klæðningu er í Ísafold 1881: „Að borðviðurinn hafi verið þurr, votta gólf og klæðning öll á húsinu þann dag í dag.“ Elsta dæmi um klæðingu er í Þjóðólfi 1886: „þá vóru eigi járnþökin og járnklæðingarnar komnar hjer.“ En elstu dæmi um orðið klæðning í merkingunni 'vegklæðning' eru í frétt með fyrirsögninni „„Klæðningin“ helmingi ódýrari en malbikið og olíumölin“ í Þjóðviljanum 1980. Elsta dæmi um orðið klæðing í sömu merkingu er í Feyki 1982: „Áætlað er að leggja bundið slitlag, svokallaða klæðingu, á Norðurlandsveginn frá Hrútatungu að Stað.“ Ég veit ekki hvers vegna Vegagerðin hefur valið að nota fremur klæðing en hið mun algengara orð klæðning en það er í sjálfu sér ekkert við það að athuga.