Vodka/vodki, votka/votki, voðka/voðki, volka/volki
Nafnorðið vodka er skýrt 'litlaus, sterkur áfengur drykkur' í Íslenskri nútímamálsorðabók. Í Íslenskri orðsifjabók kemur fram að orðið sé hugsanlega komið í íslensku úr dönsku en er upphaflega úr rússnesku þar sem það er eiginlega „smækkunarorð eða gæluorð af voda 'vatn'“. Elsta dæmi um orðið á tímarit.is er í Ísafold 1891: „sje honum fengið fje í hendur, ver hann því eigi til að kaupa matvæli fyrir, heldur brennivín (vodka).“ Önnur dæmi um orðið frá 19. öld eru úr vesturíslensku blöðunum en eftir aldamótin fer það að sjást oftar og oftar í íslenskum blöðum. Það varð þó ekki verulega algengt fyrr en á tíma seinni heimsstyrjaldarinnar og tíðnin hélt áfram að aukast út öldina en fer nú minnkandi, samfara minni neyslu sterkra drykkja.
Þegar nýtt nafnorð kemur inn í málið þarf að gefa því eitthvert kyn. Nafnorð sem enda á -a í nefnifalli eru langoftast kvenkynsorð og það eru dæmi um að vodka sé notað í kvenkyni. Í Tímanum 1967 segir: „Og að lokum drekkum við skál – í pólskri vodku!“ Í Þjóðviljanum 1992 segir: „Að lokum er mælt með staupi af ískaldri rússneskri vodku sem fer ágætlega með rauðrófusúpunni.“ En langoftast er orðið notað í þolfalli sem andlag sagnarinnar drekka og heldur þar -a-endingunni, og nafnorð sem endar á -a í þolfalli getur ekki verið kvenkynsorð heldur er annaðhvort karlkyn eða hvorugkyn. Hvorugkynsorð sem enda á -a eru hins vegar mjög fá og tákna langflest líffæri eða líkamshluta eins og auga, eyra, hjarta, nýra o.s.frv.
Þess vegna er eðlilegt að vodka í samböndum eins og drekka vodka sé túlkað eins og aukafall af karlkynsorði sem endi á -i í nefnifalli og til verði nýtt nefnifall – vodki. Elsta dæmi sem ég finn um það er í Fálkanum 1946: „Jæja, nú er ég farinn að rausa – það gerir blessaður vodkinn.“ Í Degi 1956 segir: „Við erum úti í fárviðri og höfum misst vodkann.“ Í Skólablaðinu 1962 segir: „Munntamari var mér þó oft / meinhollur vodki á brúsa.“ Langsamlega algengast er að orðið sé notað í þolfalli eintölu án greinis, vodka, og sú mynd sýnir ekki hvort um karlkyn eða hvorugkyn er að ræða, en ótvíræð karlkynsdæmi eins og þessi eru svo algeng að karlkynið vodki er sérstakt flettiorð í Íslenskri nútímamálsorðabók með vísun á hvorugkynsmyndina vodka.
Oft þarf líka að laga tökuorð að hljóðkerfi málsins. Orðið vodka hefur að geyma sambandið dk sem kemur ekki fyrir í orðum af norrænum stofni. Það er hins vegar enginn framburðarmunur á því og sambandinu tk sem til er í málinu þótt það sé sjaldgæft – komi helst fyrir í sögnunum litka og vitkast og nafnorðinu notkun. Því kemur ekki á óvart að hægt er að finna slæðing af dæmum um ritmyndina votka. Í Heimskringlu 1907 segir: „Enginn neitar þar glasi af „Votka“ undir neinum kringumstæðum.“ Í Templar 1914 segir: „Rússar hafa alveg bannað alla ‘votka’- og ölsölu í löndum sínum.“ Karlkynsmyndin votki kemur líka fyrir – í Morgunblaðinu 1982 segir: „Já, það er von að votkinn fljóti.“ En þetta er eingöngu aðlögun í rithætti, ekki framburði.
Annað samband hljóðfræðilega skylt dk er ðk sem er talsvert algengara en tk og kemur fyrir í ýmsum orðum – blaðka, iðka, iðkun, liðka, rauðka o.fl. Eins og við er að búast má finna dæmi um að þetta samband sé notað í aðlögun vodka að hljóðkerfinu. Í Ísafold 1915 segir: „Rússar bönnuðu alla sölu á Voðka og öðrum áfengum drykkjum síðastliðið sumar.“ Í Íslendingi 1919 segir: „Jeg sá Rússa drekka áfengi jafn hispurslaust og þeir drekka voðka á hinum norðlægu breiddargráðum.“ Í Fálkanum 1945 segir: „Þessu var skolað niður með rússnesku brennivíni, beisku zubrovka voðka, Moskva voðka og því, sem best var: með riabinvoðka, eða rauðum voðka.“ Þarna sýnir lýsingarorðið rauðum að voðka í síðasta dæminu er af karlkyninu voðki.
En áhugaverðasta myndin, og sú sem olli því að ég fór að skoða þetta, er volka eða volki sem var til umræðu í hópnum Skemmtileg íslensk orð. Í þeirri umræðu kom fram að þessi mynd er vel þekkt, og stöku dæmi má finna um hana á prenti. Í skólablaðinu Þjóðólfi 1960 spyr kennari: „Geturðu nefnt einhvern áfengan drykk?“ og nemandi svarar: „Já, VOLKA.“ Í Morgunblaðinu 1963 segir: „Ég get gefið þér volka eða hvað það nú heitir vodka?“ Í Morgunblaðinu 2001 segir: „Þar sem við veiddum titti og drukkum „volka“ í friði frá kellingum.“ Í Morgunblaðinu 2009 segir: „Hún mætti í allar samkomur og fékk sér jafnvel Volka ef vel stóð á.“ Nokkur dæmi frá þessari öld má einnig finna í Risamálheildinni, öll af samfélagsmiðlum.
Þessa mynd hlýtur einnig að verða að skýra sem aðlögun að íslensku hljóðkerfi. Vissulega virðist ekki liggja beint við að setja lk í stað dk – hliðarhljóðið l í stað lokhljóðsins d – en bæði hljóðin eru þó tannbergsmælt og heyranlegur munur á d og órödduðu l í þessu umhverfi þarf ekki að vera ýkja mikill. Nafnorðið volk er auðvitað til í málinu í merkingunni 'hrakningar og erfiðleikar' og spurning hvort einhver hugrenningatengsl eru við það – að drekka volka getur leitt fólk út í ýmiss konar volk. Það er ástæðulaust að fara lengra út í þá sálma, en hvað sem þessu líður eru hinar fjölmörgu framburðar- og ritmyndir þessa orðs skemmtileg dæmi um það hvernig leitast er við að laga tökuorð að hljóðkerfi og beygingakerfi málsins.