Sífleiri

Í hópnum Skemmtileg íslensk orð sá ég spurt hvort orðið sífleiri sem kom fyrir í fyrirsögn á vef Ríkisútvarpsins í dag – „Sífleiri leita til Geðheilsumiðstöðvar barna“ – væri nýyrði. Líklega hefur einhverjum sýnst þetta vera villa því að fyrirsögninni var fljótlega breytt og er nú „Sífellt fleiri leita til Geðheilsumiðstöðvar barna“. En sífleiri er samt ekki einsdæmi þótt orðið hafi ekki komist í orðabækur og sé vissulega sjaldgæft. Fimm dæmi eru þó um það á tímarit.is, það elsta í Lindinni 1938: „Þegar nú uppeldisvandræðin hraðvaxa, sífleiri neita að gjörast mæður.“ Annað dæmi er í Vikunni 1962: „Þau hafa ekki farið um Evrópulöndin, sem sífleiri Evrópubúar þekkja ár hvert meira og meira til.“ Auk þess eru dæmi frá 1966, 1988 og 2021.

Í Risamálheildinni eru tólf dæmi um sífleiri frá þessari öld, þar af aðeins tvö af samfélagsmiðlum – meirihlutinn frá síðustu fimm árum. Í DV 2019 segir: „Hann nefnir sem dæmi að sífleiri þurfi að vinna um jólin.“ Í Vísi 2020 segir: „Andrés segir engan vafa á að sífleiri verslanir bætist í hóp þeirra sem leggja áherslu á sölu í gegnum vefverslun.“ Í Kjarnanum 2019 segir: „Í takt við aukna umhverfisvitund og stefnumótun í umhverfismálum kolefnisjafna sífleiri einstaklingar, fyrirtæki og stofnanir sig.“ Á mbl.is 2015 segir: „Umhverfisverndarsinnar óttast að hlýnun jarðar muni umbreyta sífleiri svæðum Afríku í eyðimörk.“ Auk þess má finna um þrjátíu dæmi úr ýmsum áttum á netinu – notkun sífleiri virðist því færast í vöxt.

Forliðurinn sí- er fletta í Íslenskri nútímamálsorðabók og skýrður 'fyrri liður samsetninga sem táknar endurtekningu' með dæmunum hann er síbrosandi og hún er síhrædd um eigur sínar. Raunar er ekki rétt að binda þetta við endurtekningu því að oft er frekar um langvarandi ástand að ræða. Önnur orð með þessum forlið eru t.d. sífjölgandi, síflissandi, sífreðinn, sífrjór, sífullur, sífækkandi, síhlæjandi, síkvikur, sístarfandi, síungur o.fl. Í raun er ekki hægt að koma með tæmandi upptalningu á þessum orðum því að hér er um virka orðmyndun að ræða – það er hægt að bæta sí- framan við flest orð sem tákna eða geta táknað endurtekningu eða langvarandi ástand – sídettandi, síhnerrandi, sískælandi, síspyrjandi, sívælandi, síöskrandi o.s.frv.

Í öllum þessum orðum er hægt að nota atviksorði sífellt í stað forliðarins sí- sífellt flissandi, sífellt starfandi, sífellt dettandi, sífellt öskrandi o.s.frv. Ég get því ekki séð neitt athugavert við að nota orðið sífleiri í stað sífellt fleiri, í sömu merkingu. Einhverjum kann að finnast óeðlilegt að bæta sí- framan við miðstigsmynd orðsins þar sem *símargur kemur ekki fyrir, en það er af merkingarlegum ástæðum. Ýmsar hliðstæður þar sem sí- er notað með miðstigi en ekki frumstigi má finna þótt þær séu ekki algengar, eins og síbetri, síhærri, símeiri, síminni, sístyttri, sístærri, o.fl. – aftur á móti má líta á orð eins og síyngri og sínýrri sem miðstig af sínýr og síungur sem koma fyrir. Það var alveg ástæðulaust að breyta sífleiri í sífellt fleiri á vef RÚV.