Málfarssmánun – málfarsskömm

Nafnorðið smánun er gamalt í málinu – elsta dæmi um það er í Baldri 1868: „hefur hann […] orðið að sæta smánun og ofsóknum skrílsins og óþjóðalýðs hins argasta.“ Í Íslenskri nútímamálsorðabók er orðið skýrt 'það að smána e-n, sýna e-m óvirðingu' en sögnin smána er aftur skýrð 'sýna (e-m) óvirðingu, valda (e-m) skömm, auðmýkja (e-n)'. Orðið var sárasjaldgæft þar til það var notað í breytingu á almennum hegningarlögum 1973: „Hver sem með háði, rógi, smánun, ógnun eða á annan hátt ræðst opinberlega á hóp manna vegna þjóðernis þeirra, litarháttar, kynþáttar eða trúarbragða sæti sektum, varðhaldi eða fangelsi allt að 2 árum.“ Nú er sögnin smána notuð í samsvarandi lagagrein og nokkrum öðrum greinum hegningarlaga.

Eftir 1990 jókst tíðni orðsins talsvert en þó einkum eftir aldamót – í Risamálheildinni eru tæp þúsund dæmi um það. „Nú hefur smánun gengið í endurnýjun lífdaga og allir og amma þeirra eru smánaðir“ er fyrirsögn greinar í DV 2019 og á síðustu tíu árum hafa orðið til ýmsar samsetningar sem enda á -smánun. Með smánun er þá átt við það þegar gert er lítið úr fólki og það niðurlægt vegna einhverra tiltekinna eiginleika í útliti, skapgerð, hegðun o.fl. Algengustu samsetningarnar hafa verið fitusmánun, líkamssmánun, druslusmánun og þolendasmánun en þetta breytist ört. Samsvarandi orð með seinni liðinn -skömm eða -skömmun eru einnig stundum notuð í sömu merkingu þótt þau snúi oft frekar að upplifun þeirra sem verða fyrir smánun.

Auðvitað er ekki nýtt að fólk sé smánað fyrir útlit, skapgerð, hegðun og ýmislegt annað – öðru nær. Það er bara nýlega farið að tala um þetta og með umtali skapast þörf fyrir orð. En inn í þessa umræðu vantar eina tegund smánunar sem hefur lengi verið mikið stunduð og í hávegum höfð á Íslandi – að smána fólk fyrir það málfar sem það hefur alist upp við og því er eiginlegt. Þetta kemur sérlega skýrt fram í þeim orðum sem höfð eru um tiltekin frávik frá því sem talið er „rétt“ mál. Ég hef áður skrifað um nafnorðið þágufallssýki og lýsingarorðið þágufallssjúkur sem sjúkdómsvæða léttvæga breytingu á frumlagsfalli fáeinna sagna – hún er kölluð „alvarlegur kvilli“ sem „smitar ört“ og tengd við „landfarsótt“, „limafallssýki“, „niðurfallssýki“ o.fl.

Annað orð er flámæli. Fyrri hluti þess orðs vísar væntanlega til merkingarinnar 'sem víkkar út, gapandi' eins og lýsingarorðið flár er skýrt í Íslenskri nútímamálsorðabók (sú merking merkt „gamalt“) – í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 er flámæli skýrt 'Ord, der udtales med for meget sænket Tunge'. En ekki fer hjá því að hugrenningatengsl skapist við aðra merkingu orðsins flár, 'svikull, undirförull' sem og sambandið mæla flátt. Þó er flámæli eitt skásta orðið um þetta framburðareinkenni – önnur eru t.d. „flámælska, flámælgi, hljóðvilla, hljóðsýki“ segir Björn Guðfinnsson í Mállýzkum I frá 1946, og í Hljóðfræði frá 1975 bætir Árni Böðvarsson við „málflái, flágella, Suðurnesjamál, Nesjamál […] og „að tala upp á e-ið““.

Sú smánun sem flest þessi orð fela í sér fer auðvitað ekki á milli mála. Þriðja orðið sem mætti nefna er eignarfallsflótti sem Málfarsbankinn skýrir svo: „Sú tilhneiging að nota þágufall (eða nefnifall) í stað eignarfalls nefnist eignarfallsflótti.“ Þetta er svo sem frekar saklaust miðað við hin orðin, en í þessu samhengi liggur þó beint við að skilja orðið flótti þannig að lagt sé á flótta undan vandanum í stað þess að takast á við hann. Orðin þágufallssýki, flámæli og eignarfallsflótti eru sérlega skýr dæmi um það hvernig málfar fólks hefur verið notað til að gera lítið úr því og niðurlægja það – smána það. Það mætti kalla þetta málfarssmánun sem bæði meðvitað og ómeðvitað hefur verið beitt til að láta fólk upplifa málfarsskömm. Hættum því.