Vittu til, sjáðu til – og sérðu til

Orðasambandið vittu til var nefnt hér í umræðum um boðháttinn vittu fyrr í vikunni. Þetta samband er hvorki að finna í Íslenskri nútímamálsorðabók Íslenskri orðabók en er hins vegar í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 og skýrt 'det vil du nok faa at se (om n-t fremtidigt), þ.e. 'það áttu örugglega eftir að sjá (um eitthvað í framtíðinni)'. Elsta dæmi um það á tímarit.is er í Iðunni 1885: „„En vittu til“ sagði jeg við samferðamann minn, í gamni, „við eigum eptir eitthvað illt ólifað áður kvöld er komið“.“ Í Þjóðólfi 1900 segir: „Vittu til! Hver aldur á sín börn og sín einkenni.“ Í Bjarka 1902 segir: „Og vittu til, þín bíða bein / og bitar fram í skauti tíða.“ Í Nýjum kvöldvökum 1913 segir: „En vittu til, faðir minn, þetta stendur ekki lengi.“

Í þessum dæmum kemur fram það einkenni sambandsins að það er oftast í lausum setningarlegum tengslum við það sem fer á eftir eða undan – þótt vittu til væri sleppt stæði eftir fullkomin setning. Stundum tekur sambandið þó með sér aukasetningu, ýmis spurnarsetningu eða skýringarsetningu. Í Lögbergi 1891 segir: „Vittu til, hvort jeg geri það ekki.“ Í Þjóðviljanum 1971 segir: „Nú erum við búnir að því, og vittu til að ekki líður á löngu þar til síldin kemur hingað aftur.“ Þessi dæmi eru ekki mörg og stór hluti þeirra frá þessari öld, ekki síst úr stjörnuspám, t.d. „Kynntu hugmynd með öllum þeim ákafa sem þú átt til og vittu til að hún nær fótfestu“ og „Vittu til, hvort þú kemur ekki tíu sinnum meiru í verk“ í Morgunblaðinu 2006.

Annað samband ekki ósvipað er sjáðu til. Sambandið sjá til er skýrt 'bíða og láta málin þróast' í Íslenskri nútímamálsorðabók með dæminu sjáum til hvort gatan verður ekki lagfærð þar sem það tekur með sér spurnarsetningu. Slík dæmi koma vissulega fyrir í boðhætti annarrar persónu eintölu – „Sjáðu til hvort ég geri það ekki“ segir í Fróða 1911. Þetta er þó fremur sjaldgæft –langoftast er sambandið í lausum setningarlegum tengslum við umhverfi sitt, eins og vittu til, og þá er merkingin fremur 'sko!' sem nefnd er í Íslenskri orðabók. Elsta dæmi um það er í „Ævintír af Eggérti Glóa“ í fyrsta árgangi Fjölnis 1835: „Sjáðu til! óréttindin eru vön að hefna sín.“ Í Íslandi 1897 segir: „Sjáðu til, hjerna er fuglinn“ og „Sjáðu til, nú líður yfir hana aftur“.

Í dæmunum hér að framan standa vittu til og sjáðu til alltaf fremst í setningu – eða í raun oftast framan við setningu vegna þess að þau eru ekki í setningartengslum við það sem á eftir kemur nema þegar þau taka með sér spurnar- eða skýringarsetningu. En þessi sambönd geta einnig staðið aftast í – eða aftan við – setningu. Í Bjarma 1926 segir: „En Björn fyrirgefur mjer það aldrei, og hann hefnir sín, vittu til.“ Í Tímanum 1976 segir: „Þetta breytist hér eftir, vittu til.“ Í Öldinni 1893 segir: „En þarna er nafn mitt, sjáðu til.“ Í Freyju 1899 segir: „Nei, sjáðu þarna, þarna nokkuð fjær, jú, þarna læðist eitthvað, sjáðu til.“ Samböndin geta líka staðið alveg sér: „Vittu til!“ segir í Þjóðólfi 1900, „Sjáðu til!“ segir í Lögbergi 1912.

En einnig er til sambandið sérðu til. Myndin sérðu er vitanlega til sem spurnarmynd af sjá, sérðu þetta?, en ekki verður betur séð en hún sé notuð sem boðháttur í sambandinu sérðu til sem er notað alveg á sama hátt og sjáðu til. Þetta samband kemur einnig fyrir ýmist á undan eða eftir setningu og var lengi einkum í vesturíslensku blöðunum. Í Lögbergi 1912 segir: „Við reynum til að halda bók yfir gerðir okkar, sérðu til.“ Í Heimskringlu 1924 segir: „Sérðu til, nú fer hann – á leikhúsið.“ Í Bændablaðinu 2003 segir: „„Jú, sérðu til,“ hvíslaði Japaninn, „ég ætla nefnilega að verða fljótari að hlaupa en þú“.“ Í Morgunblaðinu 2007 segir: „Þið sjáið það á könnunum að stór hluti af íhaldsmönnum vill endilega fara með Steingrími, sérðu til.“