Svo að segja – ef svo má segja
Orðasambandið svo að segja hefur lengi verið mjög algengt í málinu – rúm sextíu þúsund dæmi eru um það á tímarit.is en notkun þess virðist hafa náð hámarki um miðja síðustu öld og farið smátt og smátt minnkandi síðan. Ég finn sambandið ekki í neinum orðabókum en í mínu máli merkir það 'um það bil', 'nokkurn veginn', 'næstum því' eða eitthvað slíkt og það rímar vel við ýmis dæmi á tímarit.is frá því að ég var á máltökuskeiði. Í Símablaðinu 1960 segir: „Svo að segja allir mínir vinir hafa slitið kunningsskap við mig.“ Í Rétti 1960 segir: „Nú eru svo að segja öll þessi störf unnin af föstum starfsmönnum.“ Í Almanaki Hins íslenzka þjóðvinafélags 1960 segir: „Geimgeislar eru […] atómkjarnar, sem berast um geiminn með svo að segja ljóshraða.“
Annað samband sem er svipað bæði að orðalagi og merkingu er ef svo má/mætti segja sem er ekki heldur í orðabókum. Um það eru meira en nítján þúsund dæmi á tímarit.is. Það samband er ekki heldur í orðabókum en merkir í mínu máli 'ef hægt er að orða þetta þannig', 'svo að notuð sé líking' eða eitthvað slíkt – er oft notað þegar ekki á að skilja það sem sagt er alveg bókstaflega. Þetta sést í dæmum eins og „Húsmóðirin er ef svo má segja mið og möndull viðskiptalífs samtíðarinnar“ í Samvinnunni 1960, „Hér verður að slá striki yfir fortíðina, gefa mönnum upp sakir, ef svo má segja“ í Morgunblaðinu 1960, og „Maðurinn er spendýr, og það þeirra, sem við viljum gjarnan telja æðst, efst á blaðinu, ef svo má segja“ í Úrvali 1960.
Í mínum huga er skýr merkingarmunur á þessum tveimur samböndum og mér finnst hann koma vel fram í þessum dæmum. Sambandið ef svo má segja er ekki hægt að skilja sem 'um það bil', 'nokkurn veginn' eða 'næstum því' í framangreindum dæmum. Hins vegar er oft hægt að skilja svo að segja á báða vegu og þannig hefur það verið lengi. Elsta dæmi um sambandið er í Skírni 1832: „þann 25ta ágúst höfðu Rússar, svo að segja, algjörliga sezt um borgina.“ Í Skírni 1832 segir: „sálarinnar fjör bar líkamans krapta ofrliða og hann dó svo að segja með pennann í hendinni.“ Bæði þessi dæmi finnst mér hugsanlegt að skilja á báða vegu þótt mér finnist merking á við 'þetta ber ekki að skilja bókstaflega' vera nærtækari í seinna dæminu en því fyrra.
En í seinni tíð finnst mér ég stundum heyra eða sjá dæmi sem ég gæti ekki sagt. Á Bland.is 2010 segir: „En það stoppar mig ekki í að vilja vera kurteisari í dag en í gær, svo að segja.“ Á mbl.is 2016 segir: „Hún er ekki með umboðsmann og því ein á báti, svo að segja.“ Á DV 2019 segir: „Með snjallkerfinu geturðu verið komin heim til þín á 5 sekúndum, svo að segja.“ Á Vísi 2020 segir: „Bólusetningin fer fram í tveimur umferðum, svo að segja.“ Á mbl.is 2020 segir: „Símar sem eru með appið virkt skiptast á lyklum, svo að segja.“ Í þessum dæmum er ekki hægt að skilja svo að segja sem 'um það bil', 'nokkurn veginn' eða 'næstum því', heldur hlýtur það að merkja 'ef hægt er að orða það þannig', 'svo að notuð sé líking' eða eitthvað slíkt.
Það er svo sem hugsanlegt að slík notkun sambandsins hafi tíðkast alla tíð – oft kæmu báðar merkingarnar til greina og erfitt að átta sig á því hvernig ætlast er til að sambandið sé skilið, og einmitt þess vegna er vel skiljanlegt að merking þess breytist. Það er samt rétt að athuga að í ensku er til sambandið so to speak sem er 'used to explain that what you are saying is not to be understood exactly as stated' eða 'notað til að útskýra að það sem þú ert að segja beri ekki að skilja alveg bókstaflega'. Ég hef grun um að merking sambandsins í ensku sé farin að hafa áhrif á notkun svo að segja í íslensku. Vegna líkinda sambandanna er það ekki óeðlilegt eins og áður segir, en mér fyndist samt æskilegt að halda þeim aðgreindum, hvoru með sína merkingu.