Ólíkar menningar

Í umræðu um nafnorð sem aðallega eða eingöngu eru notuð í annarri tölunni bar orðið menning á góma, en það orð er venjulega eingöngu haft í eintölu. Orðið kemur fyrir í fornu máli og er skýrt 'lærdom, kundskab, dannelse' eða 'menntun, þekking, siðfágun' í Ordbog over det norrøne prosasprog – „er þér kunnig ætt hans og auður fjár og menning góð“ segir t.d. í Gunnlaugs sögu ormstungu. Þetta var aðalmerking orðsins lengst af, a.m.k. fram undir 1900 – „Sjáanlegt virðist, að þetta sje gjört í þarfir skólabúsins, en ekki piltum til menningar“ segir t.d. í Ísafold 1891; „Lögðu þau hjón mikla rækt við uppeldi barna sinna og veittu þeim mikið fé til menningar“ segir í Austra 1896. Þessi merking býður tæpast upp á fleirtölu.

En í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 er menning skýrt 'Dannelse, Kultur, Civilisation' – 'dannelse' eða 'siðfágun' helst en tvær merkingar hafa bæst við, 'kultur' eða 'siðir, venjur og hefðir' og 'civilisation' eða 'siðmenning'. Merkingin 'siðmenning' er greinilega komin til í setningunni „margar þjóðir hafa orðið að berjast fyrir trú sinni, frelsi sínu eða jafnvel menning mannkynsins“ í Almanaki hins íslenska Þjóðvinafjelags 1895. Merkingin 'siðir, venjur og hefðir' er komin til þegar farið er að tala um íslenska menningu en elsta dæmi um það er í Öldinni 1896: „Þetta var nú blómatími íslenzkrar menningar.“ Sambandið íslensk menning verður svo algengt fljótlega upp úr aldamótunum 1900 og þar með þessi merking.

Fyrstnefnda merkingin – og sú upprunalega – er að miklu leyti horfin úr nútímamáli en tvær þær síðarnefndu eru mjög algengar og það er stundum óheppilegt að sama orðið, menning, skuli venjulega vera notað um hvort tveggja. En þrátt fyrir að þessar tvær merkingar, einkum 'siðir, venjur og hefðir', kalli á fleirtölu hefur orðið að mestu haldið í þá hegðun sem var eðlileg með upphaflegu merkingunni, að vera eingöngu notað í eintölu. Í Íslensk-danskri orðabók og Íslenskri orðabók er þó gert ráð fyrir fleirtölu – á eftir uppflettimynd stendur „-ar, -ar“ – en fleirtala orðsins er ekki gefin í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls og í Málfarsbankanum segir: „Orðið menning er kvenkynsnafnorð sem yfirleitt er aðeins notað í eintölu.“

Vissulega má finna slæðing af dæmum um að talað sé um menningar á tímarit.is en stundum þá innan gæsalappa. Í Morgunblaðinu 1978 segir: „Draumurinn um að hægt sé að sameina ólíkar menningar, þó ekki sé nema í stuttan tíma.“ Í Dagblaðinu 1978 segir: „Mismunandi einstaklingar hafa mismunandi gildisáherzlu. Mismunandi menningar einnig.“ Í Tímanum 1991 segir: „Með tilkomu fornleifafræði, mannfræði og félagsvísinda fóru menn að tala um mismunandi „menningar“ í stað mismunandi manneðlis.“ Í Ritinu 2002 segir: „Þá hafa mannfræðingar lengi litið svo á að í heiminum séu margar ólíkar menningar, að við getum talað um íslenska menningu, danska menningu, menningu Nuerfólksins o.s.frv.“

Til að uppfylla þörfina fyrir að geta notað menningu í fleirtölu er iðulega gripið til fleirtölu orðsins menningarheimur sem er skýrt 'stórt samfélag þar sem ákveðin menning er ríkjandi' í Íslenskri nútímamálsorðabók. Orðið er gamalt í málinu – elsta dæmi frá 1897 – en var ekki ýkja algengt fyrr en undir 1990. Á tíunda áratugnum hljóp mikill vöxtur í notkun þess en þó margfalt meiri í notkun fleirtölumynda en eintölumynda. Það verður tæpast skýrt á annan hátt en að fleirtalan sé notuð í svolítið annarri merkingu en eintalan – sem fleirtala af menning. Þetta sést vel á dæmum eins og „í Wales takast á tveir menningarheimar, annars vegar sá velski og hins vegar sá enski“ í Morgunblaðinu 1997. Þarna er verið að tala um mismunandi menningu.

Það er vel þekkt að mörg orð sem áður voru eingöngu notuð í eintölu hafa nú fengið fleirtölu vegna þess að merking þeirra hefur hliðrast til eða víkkað – orð eins og keppni, smit, fíkn, flug, þjónusta, orðrómur, látbragð, fælni og mörg fleiri. Í sumum tilvikum er fleirtalan viðurkennd en ekki öðrum eins og ég hef skrifað um. Eins og áður segir var eðlilegt af merkingarlegum ástæðum að orðið menning væri ekki notað í fleirtölu í upphaflegri merkingu sinni, en allt frá því á nítjándu öld hefur orðið einnig haft merkingar þar sem fleirtala væri eðlileg, og mikil notkun fleirtölunnar menningarheimar á seinni árum sýnir glöggt að full þörf er fyrir að geta talað um margar menningar. Mér finnst að við eigum ekki að hika við að gera það.