Snoðlíkt umferðaróhapp

Í frásögn mbl.is af bílveltu í Hafnarfirði í gær segir: „Snoðlíkt umferðaróhapp varð fyrr í kvöld þegar bíll hafnaði utan vegar í Hafnarfirði og lenti á hliðinni.“ Ég staldraði við þessa frétt vegna þess að orðið snoðlíkt kom mér ókunnuglega fyrir sjónir. Merking þess er þó nokkuð ljós af samhenginu vegna þess að haft eftir varðstjóra hjá Slökkviliðinu: „Þetta er nánast copy-paste“ – af fyrra óhappinu. Lýsingarorðið snoðlíkur er líka að finna í bæði í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 og Íslenskri orðabók þar sem það er skýrt 'keimlíkur, dálítið líkur (í útliti)'. Orðið er hins vegar ekki að finna í Íslenskri nútímamálsorðabók enda mjög sjaldgæft á prenti – aðeins 65 dæmi á tímarit.is en 25 í Ritmálssafni Árnastofnunar, mörg hver þau sömu.

Elsta dæmi sem ég finn um orðið er í bréfi frá Sigurði Péturssyni í Ási í Hegranesi 1850: „getur þú til gamans borið saman hvaða snoðlíkt þetta er gjöfum Björns á Hofstöðum.“ Elsta dæmið á tímarit.is og í Ritmálssafni Árnastofnunar er úr Íslendingi 1860: „Það er aðdáanlegt, hvað þessi ályktunin er snoðlík hinni fyrri.“ Dæmin á tímarit.is dreifast á flesta áratugi frá 1860, aldrei fleiri en tíu á sama áratug, níunda áratug síðustu aldar – nefna má að níu af tíu dæmum frá þeim áratug eru úr sama blaði og flest frá sama blaðamanni. Aðeins sex dæmi eru frá þessari öld og því er nokkuð óvænt að finna tvö dæmi til viðbótar á samfélagsmiðlum – annað er frá 2019 á Málefnin.com: „þessi vesalings maður, mr. Butt's, hann er snoðlíkur Alfred E. Neuman.“

Árin 1922-1923 birtust í Tímanum fjölmargir pistlar Þórbergs Þórðarsonar með yfirskriftinni „Orðabálkur“. Í þeim fyrsta segir: „Undir þessari fyrirsögn hefir ritstjóri Tímans leyft mér að birta framvegis í hverju tölublaði orð og orðasambönd úr safni mínu, ásamt skýringum, sem mér eru á þeim kunnar.“ Í einum pistlinum segir: „snoðlíkur (stigbreytist ekki?), 1., áþekkur, sviplíkur. Suðursv.“ Þórbergur safnaði orðum úr töluðu máli og fyrst hann tekur snoðlíkur upp er ljóst að hann hefur talið það sjaldgæft. Það þarf hins vegar ekki að segja neitt þótt hann tengi það Suðursveit því að hann var þaðan og hefur þekkt orðið frá heimaslóðum sínum. En dæmi í Ritmálssafni Árnastofnunar virðast ekki tengjast sérstökum landshluta.

Uppruni orðsins snoðlíkur er ekki skýrður í orðabókum og óljóst hvernig eigi að skilja fyrri liðinn, snoð­-, í þessu samhengi. Orðið snoð er skýrt 'stutt og þétt hárlag á dýrum, sem gjarna fellur burt og rýmir fyrir nýju hári eða ull' í Íslenskri orðsifjabók og þar er einnig að finna lýsingarorðin snoðkopsulegur og snoðkoppslegur í merkingunni 'kollhúfulegur (t.d. eftir klippingu), sviplítill' og nafnorðið snoðkoppur í merkingunni 'sviplítill maður'. Þessi orð sýna að snoð- er notað í orðum sem vísa til útlits sem rímar við skýringuna á snoðlíkur í orðabókum. Lýsingarorðið snoðinn getur líka merkt 'sneyddur einhverju' og hugsanlega vísar snoðlíkt til þess að eitthvað sé líkt þegar búið er að snoða það – svipta það sérkennum sínum.

Þetta eru þó aðeins getgátur, og uppruninn skiptir svo sem ekki öllu máli – það er ljóst hvað orðið merkir. Eins og segir í upphafi kannaðist ég ekki við það en konan mín segist þekkja það frá foreldrum sínum og blaðamaðurinn sem skrifaði fréttina þar sem ég rakst á orðið hefur notað það oftar í fréttaskrifum sínum nýlega – „Eldgosið sem hófst milli Sundhnúka og Stóra-Skógfells í gærmorgun er snoðlíkt síðustu tveimur gosum“ og „Kokkabakgrunnur Grjasnovs er einnig snoðlíkur bakgrunni annars Rússa“. Þetta er gott dæmi um að orð geta lifað góðu lífi í málinu áratugum og öldum saman þrátt fyrir að þau komist sjaldan á prent, og sýnir jafnframt að ritað mál er oft mjög ófullkomin heimild um raunverulega málnotkun í töluðu máli.