Þvílíka fjörið

Orðið þvílíkur er greint sem fornafn í Ritmálssafni Árnastofnunar og sem óákveðið fornafn í Íslenskri nútímamálsorðabók en í ýmsum orðabókum er það greint sem lýsingarorð og einnig í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls, enda hefur það veika beygingu. En hún virðist ekki vera gömul – elstu dæmi sem ég finn um hana eru frá árinu 2000. Í Munin það ár segir „Þvílíka ruglið“, í Eyjafréttum segir „En stíflan brast með þessu þvílíka marki hjá Inga“ og í Morgunblaðinu segir „Þetta er búið að vera þvílíka rennireiðin“. „Fjöldi dæma er um veiku beyginguna á samfélagsmiðlum frá næstu árum eftir aldamótin en í öðrum textum fara dæmi ekki að sjást að ráði fyrr en 2007 og hefur farið ört fjölgandi, einkum á síðustu tíu árum.

Veika beygingin kemur fram við sömu aðstæður og veik beyging lýsingarorða, þ.e. í ákveðnum nafnliðum. Það sem gerir nafnliði ákveðna er einkum ákveðinn greinir á nafnorði, lausi greinirinn hinn og ábendingarfornöfnin og þessi. Dæmi með ákveðnum greini og þessi má sjá hér að framan en einnig má finna dæmi með lausa greininum, svo sem – „Hinn þvílíki undirbúningur sem sést hér á sér fáa líka“ í DV 2009. Það er því ljóst að orðið þvílíkur er farið að haga sér eins og lýsingarorð að flestu leyti – stigbreytist reyndar ekki en fyrir því eru merkingarlegar ástæður eins og hjá ýmsum lýsingarorðum. Ég legg því til að þvílíkur verði framvegis greint sem lýsingarorð – eins og farið er að gera með ýmis sem áður var talið fornafn.

Í gær var hér vitnað í setninguna „Það var tryllt í gær, þvílíka stemningin í höllinni“ í viðtali á mbl.is fyrr á þessu ári. Hliðstæð dæmi eru mjög algeng. Í Fréttablaðinu 2007 segir: „Þetta var þvílíka stuðið.“ Í Morgunblaðinu 2008 segir: „Á meðan við lékum okkur galdraði frænka fram þvílíka veisluborðið.“ Í Morgunblaðinu 2015 segir: „þvílíka þolinmæðin sem þú sýndir barnabörnunum þínum.“ Í Morgunblaðinu 2016 segir: „Hér er dottin á þvílíka blíðan með logn og sól.“ Í Fréttatímanum 2017 segir: „Þau eru rosalega dugleg að bjóða okkur í mat og það eru nú þvílíku veislurnar.“ Í Morgunblaðinu 2018 segir: „Þvílíka partíið sem hefur verið á Króknum aðfaranótt sunnudags.“ Í Eyjafréttum 2023 segir: „Þvílíka batteríið í kringum þetta.“

Til skamms tíma hefði þvílíkur verið haft þarna í sterkri beygingu og nafnorðið án greinis – þvílík stemning í höllinni – og spurningin er hvers vegna þetta breytist. Í umræðum var bent á líkindi við sambönd eins og ljóta ruglið / ástandið o.s.frv. og meiri vitleysan / hörmungin o.s.frv. þar sem líka er notuð veik beyging lýsingarorðs og ákveðinn greinir á nafnorði án sýnilegrar ástæðu – við þetta mætti bæta sambandinu góða kvöldið sem stundum er amast við. Svo má líka spyrja hvort þvílík stemning og þvílíka stemningin merki alveg það sama. Mér finnst stundum að þvílíka stemningin sé eða geti verið sterkara en þvílík stemning en svo getur líka verið að þetta sé bara breyting á formi án merkingarlegrar ástæðu eða áhrifa.