Frjálsarnar

Í fréttum og lýsingum frá Ólympíuleikunum heyrist og sést orðið frjálsar býsna oft – „fimleikar og frjálsar í fararbroddi“ stóð í fyrirsögn á vef Ríkisútvarpsins í dag, „Á að breyta reglum í frjálsum?“ stóð í annarri fyrirsögn fyrr í vikunni. Þetta er auðvitað stytting úr frjálsar íþróttir en það samband hefur tíðkast lengi í málinu – elsta dæmi um það á tímarit.is er frá 1916 en samsetningin frjálsíþróttir sést fyrst 1938. Það er ekkert einsdæmi að samband lýsingarorðs og nafnorðs sé stytt á þennan hátt – „kostar tré af þeirri stærð einn bláan, þ.e. eitt þúsund krónur“ segir t.d. í Degi 1988; „Skyldi hann fá sér tvo sterka um morguninn fyrir messu“ segir í Nýjum vikutíðinum 1963. Þetta er ekki síst algengt ef sambandið er einhvers konar heiti.

En stundum er myndin frjálsarnar notuð – „Eitrað lúkk hjá okkar manni þegar frjálsarnar duttu í gang!“ skrifaði Edda Sif Pálsdóttir á X í gær og hlekkjaði á færslu Sigurbjörns Árna Arngrímssonar. Þessi orðmynd getur ekki verið beygingarmynd af lýsingarorðinu frjáls heldur er þarna búið að bæta greini við myndina frjálsar og gera hana þannig að nafnorði. Þetta er ekki alveg nýtt – elsta dæmi um það á tímarit.is er „Það passaði vel fyrir mig að eiga barn á þessum tíma og fá smáhvíld frá frjálsunum“ í DV 2001. Dæmi frá því upp úr aldamótum er að finna á samfélagsmiðlum – „farðu í sturtu það styttist frjálsarnar“ segir á Hugi.is 2003; „Svo byrja frjálsarnar líka næstu helgi“ segir á Bland.is 2004.

Vegna þess að myndin frjálsar er oft notuð án meðfylgjandi nafnorðs í merkingunni 'frjálsar íþróttir' er ekkert undarlegt að farið sé að meðhöndla hana sem nafnorð, enda gæti hún formsins vegna verið fleirtala af kvenkynsnafnorði. En út frá myndunum frjálsar í nefnifalli og þolfalli og frjálsum í þágufalli er ekki hægt að sjá hvort um lýsingarorð eða nafnorð er að ræða og þess vegna er óhjákvæmilegt að halda sig við hefðbundna málnotkun í greiningu og greina þær myndir sem lýsingarorð. Öðru máli gegnir um eignarfallið – það er frjálsra af lýsingarorðinu en ætti að vera frjálsa af nafnorði því að -ra getur ekki verið eignarfallsending nafnorðs. En eignarfallið er sjaldgæft og ég hef ekki fundið dæmi um myndina frjálsa án greinis.

En eignarfall með greini var notað í „ákveðinn hápunktur frjálsanna“ á RÚV í dag og á Twitter 2015 – „Tala nú ekki um það – alfræðiorðabók frjálsanna!“ Myndir með greini sýna vitanlega að orðið er notað sem nafnorð. Um ótvíræðu nafnorðsmyndirnar frjálsarnar og frjálsunum eru 16 dæmi á tímarit.is og 26 í Risamálheildinni og þessi notkun virðist færast í vöxt en er einkum bundin við óformlegt málsnið – enn sem komið er að minnsta kosti. Þetta er ekki heldur neitt einsdæmi – til dæmis eru nafnorðin franskar(nar) og frönskur(nar) mynduð á svipaðan hátt af styttingunni franskar í merkingunni 'franskar kartöflur'. Mér finnst svona orðmyndun skemmtileg og sé ekkert athugavert við hana og því enga ástæðu til að amast neitt við henni.