Franskarnar, frönskurnar – og fröllurnar
Ég nefndi í gær að samböndin frjálsar íþróttir og franskar kartöflur hefðu þróast á svipaðan hátt, að því leyti að í þeim báðum hefði lýsingarorðið verið notað um tíma án nafnorðsins, frjálsar og franskar, en síðan verið gert að nafnorði og farið að bæta við sig greini. Þróun síðarnefnda sambandsins á sér þó bæði lengri sögu og er talsvert flóknari. Notkun franskar í merkingunni 'franskar kartöflur' er meira en hálfrar aldar gömul – í Alþýðublaðinu 1971 segir: „En Eþíópíubúar, sem komið hafa til Evrópu eru famir að kunna að meta „fisk og franskar“.“ Elstu dæmi um orðið með greini, sem eru ótvíræð nafnorðsdæmi, eru á samfélagsmiðlum, t.d. „Ef það er skipt oftar þá kemur ekki þessi góða stökka skorpa á franskarnar“ á Hugi.is 2001.
Þágufall með greini af kvenkynsorðinu franskar er frönskunum og það fer að sjást um svipað leyti – „ég gat borðað hálfan hamborgara ekkert af frönskunum mínum“ segir á Hugi.is 2002. En þá flækist málið því að frönskunum gæti líka verið þágufall af myndinni frönskurnar sem er talsvert eldri en franskarnar og sést fyrst í Degi 1986: „Það eru hamborgararnir og frönskurnar.“ En sá mikilvægi munur er á frönskurnar og franskarnar að í fyrrnefnda orðinu er hægt að flokka myndir án greinis sem ótvíræðar nafnorðsmyndir því að greinislausa myndin frönskur sem fyrst sést á Bland.is 2004 – „ætla fá hamborgara með mikilli sósu, frönskur, stóran skammt já“ – fellur ekki saman við lýsingarorðsmyndina franskar.
Í frönskur(nar) er notuð fleirtöluendingin -ur sem aðeins getur verið nafnorðsending í stað -ar í franskar(nar) sem getur verið hvort heldur er ending nafnorðs eða lýsingarorðs. Hugsanlega er þessi ending notuð til að merkja orðið sérstaklega sem nafnorð og greina það frá lýsingarorðinu – -ur er líka ending veikra kvenkynsorða og þar með langalgengasta fleirtöluendingin. En -ur-endingunni fylgir sjálfkrafa u-hljóðvarp í stofni, þ.e. fransk-ar > fransk-ur > frönskur. Þegar myndin frönskur er orðin til liggur beint við að mynda af henni eintölu sem eðlilegast væri að yrði franska í nefnifalli eins og oftast er í veikum kvenkynsorðum sem hafa ö í stofni í fleirtölu, eins og kökur – kaka, tölur – tala o.s.frv.
En myndin franska félli saman við heiti tungumálsins og e.t.v. er einhver andstaða við það í huga málnotenda – a.m.k. hef ég ekki fundið nein ótvíræð dæmi um þessa eintölumynd af frönskur. Vissulega kemur líka til greina að halda ö-inu í nefnifalli eintölu, eins og í tölvur – tölva (sem hefur reyndar mikla tilhneigingu til að verða talva) og einhver dæmi eru um nefnifallið frönska – á Twitter 2016 fylgir textinn „stór frönska“ með viðeigandi mynd, og á Twitter 2017 segir: „Fann drasl á milli brjóstanna, hélt það væri frönska.“ Hins vegar eru nokkur dæmi um aukaföllin frönsku – „já úff , maður fær eina frönsku með kjúllanum“ segir t.d. á Bland.is 2006. Sú mynd getur verið hvort heldur er af nefnifallinu franska eða frönska.
Bæði franskar(nar) og frönskur(nar) eru algeng orð á seinustu árum – á tímarit.is eru 26 dæmi um franskarnar en 93 um frönskurnar og 11 um frönskur. Í Risamálheildinni eru hlutföllin öfug – þar eru 844 dæmi um franskarnar en 287 um frönskurnar og 52 um frönskur. Um þágufallsmyndina frönskunum sem gæti verið af hvoru orðinu sem er eru 76 dæmi á tímarit.is en 355 í Risamálheildinni. Nokkur dæmi eru um franskanna í eignarfalli fleirtölu með greini, t.d. „þeir reyna að gera fæðuna fjölbreyttari með einhverri nýrri kaloríubombu sem á að koma í stað franskanna“ á Hugi.is 2008. Þetta er eðlileg mynd af nefnifallinu franska en af nefnifallinu frönska ætti eignarfall fleirtölu að vera frönskanna en ég finn engin dæmi um það.
Svo er það myndin fröllur en um hana og beygingarmyndir af henni eru 27 dæmi á tímarit.is en 769 í Risamálheildinni – elsta dæmið er í DV 2000: „Því er einnig að finna lista yfir þá sem sneru hamborgara og steiktu fröllur.“ Orðið er þó e.t.v. að verða úrelt – í viðtali við ungling í Morgunblaðinu 2018 segir: „Það segir t.d. enginn lengur fröllur [franskar kartöflur] nema foreldrar.“ Fyrri hlutinn frö- er auðskiljanlegur en því hefur verið stungið að mér að l-ið sé komið úr kartöflur og þarna sé því um einhvers konar sambræðslu að ræða. En hver sem skýringin er sýna myndirnar franskar(nar), frönskur(nar) og fröllur(nar) hversu lifandi og frjó íslenskan er og hversu hugkvæmir málnotendur eru við nýsmíði orða. Það er frábært.