Tvö afmæli
Fyrir fimm árum bar frídag verslunarfólks líka upp á mánudaginn fimmta ágúst. Í fréttum Sjónvarpsins það kvöld var sagt frá upphafi kartöfluupptöku en orðalag fréttarinnar hugnaðist ekki öllum – „Traktorinn TEYMIR kartöfluupptökuvélina segir fréttabarnið á RÚV“ sagði í hneykslunarinnleggi í Málvöndunarþættinum. Það er vissulega rétt að venjulega væri sögnin draga notuð þarna frekar en teyma en svipuð dæmi eru þó til – „Sér er nú hver vinnan sem þú framkvæmir, – dregur plóg eða teymir vagn“ segir t.d. í Þjóðviljanum 1947. Vitanlega er teyma dregið af taumur en sögnin er samt mjög oft notuð í afleiddri merkingu þar sem enginn taumur er til staðar. Það er talað um að teyma hjól, teyma fólk út í eitthvað o.s.frv.
Mér blöskruðu þessi viðbrögð – einkum hvernig talað var niður til ungs fólks með orðinu fréttabörn. Þess vegna skrifaði ég pistil til varnar ungu fréttafólki og birti hann í Málvöndunarþættinum daginn eftir, 6. ágúst 2019. Upp úr því fór ég að skrifa pistla um mál, málfræði og málfar og birti þá í Málvöndunarþættinum fyrsta árið – alls um 120 pistla. Þar kom þó að mér ofbauð andinn í umræðunni í Málvöndunarþættinum og ákvað eftir ár að stofna minn eigin hóp í staðinn til að efla jákvæða umræðu. Hópurinn Málspjall var stofnaður 7. ágúst 2020 og á því fjögurra ára afmæli á morgun. Í tilefni af þessum tveimur afmælum, í dag og á morgun, endurbirti ég hér fyrsta pistilinn frá 6. ágúst 2019 – mér finnst hann hafa elst ágætlega.
Ég sé oft á Fésbók, m.a. í þessum hópi [þ.e. Málvöndunarþættinum], að fólk furðar sig eða hneykslast á orðfæri eða orðfátækt ungra blaðamanna. Það er alveg skiljanlegt – ég stend mig iðulega að því sjálfur að hrista hausinn yfir einhverju sem ég sé eða heyri í fréttum og brýtur í bága við það málfar og orðfæri sem ég þekki og ólst upp við. En ég er kominn á sjötugsaldur - alinn upp í sveit fyrir u.þ.b. hálfri öld. Það umhverfi sem blaðamenn (og annað fólk) á þrítugsaldri hafa alist upp í er gerólíkt – á nánast öllum sviðum. Samfélagið hefur gerbreyst, tæknin hefur gerbreyst, tengsl við útlönd hafa margfaldast - allt umhverfi okkar hefur breyst meira en við áttum okkur kannski á í fljótu bragði.
Og breytt þjóðfélag þýðir líka breytt málumhverfi og því fylgir breytt orðfæri – það þarf að tala um ótalmörg ný hugtök, fyrirbæri og svið þjóðlífsins, en ýmis hugtök, fyrirbæri og svið sem flestir þekktu fyrir nokkrum áratugum eru nú á fárra vörum eða jafnvel aðeins minning. Þess vegna er ekki við því að búast að fólk á þrítugsaldri hafi vald á öllu sama orðfæri og við sem munum tímana tvenna. Það hefur einfaldlega ekki fengið tækifæri til að tileinka sér það orðfæri sem tíðkaðist á ýmsum sviðum. En á móti kann þetta unga fólk að tala um allt mögulegt sem við höfum ekki hundsvit á.
Þetta þýðir ekki að við eigum bara að yppta öxlum og láta það afskiptalaust ef brugðið er út af málhefð, þótt rétt sé að hafa í huga að stundum er til önnur hefð en sú sem við þekkjum – hefðir geta verið mismunandi eftir landshlutum, og til getur verið eldri eða yngri hefð en sú sem við höfum vanist. Það er sjálfsagt að leitast við að halda í það orðfæri sem hefð er fyrir, og benda á ef út af bregður. En það er heppilegra að gera það í formi fræðslu og ábendinga en furðu og hneykslunar, þar sem jafnvel er gert lítið úr þeim sem verður eitthvað á að mati umvandara. Slíkt er ekki vænlegt til árangurs.