Drúld, drúldinn, drúlda og drúldaður
Í gær sá ég á Facebook spurt um orðið drúldinn sem fyrirspyrjandi hafði rekist á í bók en kannaðist ekki við og taldi líklegast að væri villa fyrir drýldinn sem er vel þekkt orð. Svo er þó ekki – þótt orðið drúldinn sé ekki gefið í Íslenskri nútímamálsorðabók er það að finna í Íslenskri orðabók í merkingunni 'þungbúinn' eða 'þverúðlegur' og í Íslenskri orðsifjabók er orðið skýrt 'þungbúinn (um fólk og veður)'. Orðið kemur mjög sjaldan fyrir í nútímamáli eins og fram kemur í dálknum „Málið“ í Morgunblaðinu 2021 þar sem segir: „Yngsta dæmið um drúldinn í Ritmálssafni er búið að vera á ellilífeyri í mörg ár.“ Það er alveg rétt – aðeins sex dæmi eru um orðið í Ritmálssafni Árnastofnunar, þau yngstu frá því um og fyrir miðja tuttugustu öld.
Þess má geta að í nokkrum dæmum um drúldinn á tímarit.is, sem eru alls innan við tuttugu, kemur orðið fyrir í frásögnum af Eiríki Ólafssyni eða Ólsen sem var uppi kringum aldamótin 1800 og þótti sérkennilegur. Eftir honum er haft, fyrst í Ísafold 1891 en nokkrum sinnum síðan: „en þú ert útinn og tútinn, úldinn og drúldinn, eins og andskotinn uppmálaður á Harmoníu.“ En einnig kemur orðið fyrir í Vísi 1962: „fram að því hafði hún setið drúldin í sæti sínu.“ Í Alþýðublaðinu 1964 segir: „þótt vegfarendur væru dálítið drúldnir á svipinn af því að þeir höfðu ekki fengið neina sól í sumar.“ Í Morgunblaðinu 1992 segir: „Mesta upplifunin þennan dag fannst mér vera að hitta menn sem voru bæði drýldnir og drúldnir í senn.“
Í Íslenzkum rjettritunarreglum frá 1859 segir Halldór Kr. Friðriksson að stundum sé: „ýmist […] haft ú eða ý í sama orðinu, t.a.m.: drúldinn og drýldinn“, og vissulega eru báðar myndirnar leiddar af kvenkynsorðinu drúld sem merkir 'fýlusvipur' og kemur einnig fyrir í karlkynsmyndinni drúldur og veiku kvenkynsmyndinni drúlda sem eru allar sárasjaldgæfar. Um drúld er aðeins dæmi í Paradísarheimt Halldórs Laxness: „Hann gekk að kistlinum fyrstur manna í hópnum og fór að skoða þetta, þó með drúld.“ Um drúlda eru dæmi í Konungurinn á Kálfsskinni eftir Guðmund G. Hagalín frá 1945, „Jósef ók sér og setti á sig drúldu“, og í Morgunblaðinu 1961: „Þegar allir hlógu að bröndurum Krúsjeffs. sat Chou eins og drúlda“.
En þótt uppruni drúldinn og drýldinn sé sá sami er hæpið að hægt sé að líta á þetta sem sama orð í nútímamáli. Merking orðsins drúldinn sem er frá 17. öld er í fullu samræmi við merkinguna í drúld en í drýldinn sem er frá 19. öld hefur merkingin hnikast nokkuð til og er 'góður með sig, sjálfhælinn, montinn' eins og segir í Íslenskri nútímamálsorðabók. En það er ljóst að drúldinn hefur lengi verið sjaldgæft orð. Það má m.a. marka af því að Úrvali 1945 er það haft með í dálknum „Hver er orðaforði þinn?“ þar sem er „listi yfir fágæt orð ásamt þrem skýringum með hverju orði og er aðeins ein þeirra rétt“. Möguleikarnir sem gefnir eru við drúldinn eru rakur, úrillur og falskur og annars staðar í ritinu kemur fram að úrillur sé rétt.
Sögnin drúlda sem er flettiorð í Íslenskri orðabók í merkingunni 'vinna e-ð með semingi og gremju' er augljóslega skyld þessum orðum – hún kemur fyrir í Arnbjörgu eftir Björn Halldórsson í Sauðlauksdal, frá seinni hluta 18. aldar: „en stundum drúlda yfir einhverri vinnu.“ Af henni er leitt lýsingarorðið drúldaður sem kemur fyrir í lýsingu Ástu Sigurðardóttur rithöfundar á Snæfellsjökli í bókinni Ísland í máli og myndum frá 1960: „hann er mistraður, hólaður, gloraður og drúldaður – og allt vissi þetta á illt.“ Lýsingarorðin drúldinn og drúldaður, nafnorðin drúld og drúlda og sögnin drúlda eru allt orð sem vel mætti endurvekja og nota, þótt merking þeirra sé reyndar þess eðlis að vonandi þurfi sem sjaldnast á þeim að halda.