„Fjaran þakin klökum“
Í fyrirsögn á mbl.is í fyrradag stóð „Fjaran þakin klökum“ og í fréttinni sjálfri var haft eftir landverði: „Þetta eru fleiri klakar en ég hef séð á ströndinni.“ Þessi frétt var gerð að umtalsefni í Málvöndunarþættinum og tvenns konar athugasemdir hafðar uppi um orðalagið – annars vegar að klaki væri ekki rétta orðið þarna heldur ætti að tala um jakabrot eða eitthvað slíkt, og hins vegar að klaki væri ekki til í fleirtölu. Vissulega er klaki í merkingunni 'frosið vatn í umhverfinu, ís' eins og orðið er skýrt í Íslenskri nútímamálsorðabók aðeins notað í eintölu, í setningum eins og „Sumarið var kalt og fór aldrei klaki úr jörðu það sumar“ í Ganglera 1870 en öðru máli gegnir þegar orðið er haft í merkingunni 'klakastykki' sem hefur tíðkast lengi.
Í vísu eftir Stephan G. Stephansson frá lokum 19. aldar segir: „Klakar þrengja vaðið.“ Í Morgunblaðinu 1960 segir: „þó eru fannir í öllum giljum og brekkum, og sums staðar klakar á sléttlendi.“ Í Lesbók Morgunblaðsins 1974 segir: „Snjórinn rann af jörðinni og klakar tóku að flysja sig frá sverðinum.“ Í Mjölni 1976 segir: „Komið hafa í ljós undan mjöllinni miklir klakar, allt að 40-50 cm þykkir.“ Í Morgunblaðinu 1982 segir: „Stórir klakar, spýtnarusl og ýmislegt annað lauslegt lá úti um öll tún.“ Í Morgunblaðinu 1986 segir: „Nú er kominn brúsandi sunnanþeyr með hláku og klakar sem óðast að bráðna.“ Í Morgunblaðinu 2006 segir: „Það var flóð með miklum jakaburði, þetta voru 90 sentímetra þykkir klakar sem sátu eftir á bakkanum.“
Í staðinn fyrir klakar mætti í öllum þessum dæmum nota orðið klakastykki, eða þá klakabrot eða jakabrot – mér sýnist þó að síðastnefnda orðið sé frekar notað um stærri stykki. Undanfarna áratugi hefur orðið klaki auk þess verið notað í merkingunni 'ísmolar (t.d. í drykk)' og þá er það oft í fleirtölu. Þetta hefur tíðkast í a.m.k. 40 ár – „Ég get varla meint að slík skemmtun yrði rekin með tapi þegar klakar í glasi sem fyllt er upp með gosi kostar 25 krónur“ segir í DV 1983. Þar fyrir utan hefur orðið verið notað í merkingunni 'frostpinni' í hálfa öld: „Emmess-ís – toppar – klakar – pinnaís“ segir í Eyjablaðinu 1975. Það má vel vera að þessar merkingar hafi ýtt undir notkun orðsins í fleirtölu í merkingunni 'klakastykki' en hún er þó miklu eldri.