Héri, héra og hérun
Nafnorðið héri er gamalt í málinu, kemur fyrir þegar í fornu máli, og hefur lengi haft tvær merkingar – annars vegar 'nagdýr með löng eyru sem líkist kanínu' og hins vegar 'feiminn og huglaus maður' eins og segir í Íslenskri nútímamálsorðabók. Í seinni tíð hefur orðið fengið þriðju merkinguna í íþróttamáli – „Fyrir þá sem ekki vita er sá kallaður héri sem hleypur á undan keppendum í langhlaupi en tekur sjálfur ekki þátt í baráttunni um verðlaunasætin“ segir í grein eftir Heiðu Maríu Sigurðardóttur á Vísindavefnum. Í dönsku er orðið hare notað í þessari merkingu þannig að líklegt er að þetta sé komið þaðan, og sambandið hlaupa eins og héri er gamalt í málinu og væntanlega einnig komið úr dönsku enda hafa hérar aldrei verið á Íslandi.
Ég stóð í þeirri meiningu að notkun orðsins héri í sambandi við keppnishlaup væri frekar nýleg en svo reyndist ekki vera. Í Íþróttablaðinu Sport 1949 segir: „þótti einhver bezti „héri“ í Svíþjóð.“ Í Allt um íþróttir 1953 segir: „sé héri látinn hlaupa með honum fyrstu 1000 metrana getur hvað sem er komið fyrir.“ Í Vísi 1954 segir: „Finnskur hlaupari […] tók að sér að vera „héri“ fyrir Landy.“ Í Þjóðviljanum 1954 segir: „Chris Chataway, sem kallaður hefur verið „bezti héri heims“.“ Í Morgunblaðinu 1960 segir: „„Héri“ er táknheiti manns er gætir þess að byrjunarhraði í hlaupi sé nægur til mikils afreks.“ Í fjórum af þessum dæmum er héri innan gæsalappa sem bendir til þess að þessi notkun orðsins hafi verið nýleg um miðja 20. öld.
Af þessari merkingu nafnorðsins héri hefur svo verið leidd sögnin héra. Hún virðist vera nýleg og sárafá ritmálsdæmi um hana enn sem komið er. Í Morgunblaðinu 2020 segir: „Ég lagði því til að hann myndi enda tímabilið með því að toppa í Ármannshlaupinu og ég myndi héra hann allt hlaupið. Þegar við tölum um að héra í hlaupum er það í rauninni þannig að ég sá um að halda réttum hraða og taka vindinn.“ Á hlaup.is 2020 segir: „Margir af bestu hlaupurum heimsins aðstoða Eliud við þessa tilraun með því að héra hann (í hópum) 3 km í senn.“ Það er því ljóst að sögnin er áhrifssögn og héra einhvern merkir 'vera héri fyrir einhvern'. Hugsanlega er líka talað um að héra hlaupið en ég hef ekki fundið dæmi um það.
Í dag var vakin athygli á því hér að Sigurbjörn Árni Arngrímsson hefði notað orðið hérun í lýsingu á hlaupi. Það er þó ekki í fyrsta skipti sem orðið er notað – „Þakka […] fyrir geggjaða hérun“ segir t.d. í færslu á Instagram 2019. Þetta orð er fullkomlega gagnsætt fyrir þau sem þekkja sögnina héra – viðskeytið -un er eitt virkasta viðskeyti málsins og merkir í upphafi jafnan 'það að gera' það sem felst í sögninni sem -un-orðið er leitt af (þótt merkingin geti breyst með tímanum). Það þarf reyndar ekki endilega að þekkja sögnina til að átta sig á merkingu orðsins hérun – þau sem þekkja nafnorðið héri tengja orðin væntanlega saman. Sögnin héra og nafnorðið hérun eru eðlileg og sjálfsögð afkvæmi orðsins héri og rétt að taka þeim fagnandi.