Ég erfði hann að láninu
Nýlega rakst ég á ábendingu um að sögnin erfa hefði verið notuð ranglega í þýðingu á barnaefni í sjónvarpinu. Sögnin er einkum notuð í samböndunum erfa eitthvað sem merkir 'fá e-n hlut eða eignir í arf' og erfa einhvern sem merkir 'fá arf eftir einhvern' en í dæminu sem vísað var til hafði hún verið notuð í merkingunni 'arfleiða', þ.e. 'láta einhvern fá (eitthvað í) arf'. Varað er sérstaklega við þessari notkun í Málfarsbankanum: „Athuga að rugla ekki saman sögnunum arfleiða og erfa. Rétt er að tala um að arfleiða einhvern að einhverju og erfa eitthvað.“ En vitanlega þætti ekki ástæða til að vara við þessari notkun nema hún hefði tíðkast eitthvað, og hægt er að finna allnokkur dæmi um hana þótt erfitt sé að leita að þeim á rafrænan hátt.
Elsta dæmi sem ég fann á tímarit.is er í Nýjum kvöldvökum 1927: „Vonandi hefir hann ekki erft mig að görmunum sínum.“ Í Morgunblaðinu 1953 segir: „Læknir nokkur, Hólm að nafni, myrti einn af sjúklingum sínum, sem hafði erft hann að mikilli fjárupphæð.“ Í Vísi 1957 segir: „Þau gætu lifað eins og furstar, aðeins af vöxtunum af öllum þeim auðæfum, sem Qrace myndi erfa hann að.“ Í „Móðurmálsþætti“ Vísis skömmu síðar spyr bréfritari „hvort ekki sé hér rangt farið með sögnina að erfa“ og umsjónarmaður þáttarins svarar: „Ég kannast ekki við þessa notkun sagnarinnar að erfa og tel hana ranga. Hún merkir að fá eitthvað í arf, en ekki láta arf af hendi […]. Í umræddri málsgrein mun blandað saman sögnunum erfa og arfleiða.“
Dæmum virðist svo fjölga undir lok aldarinnar. Í Tímanum 1990 segir: „Erfði hann félagið að öllum eigum sínum.“ Í Skagablaðinu 1991 segir: „Þar hafði blessunin hún Lína móðursystir Fríu erft hana að kofa sem hún kallaði sumarbústað.“ Í Helgarpóstinum 1994 segir: „Þegar hann erfir hana að öllum auðæfum sínum reyna hálfsystkini hennar að knésetja hana með öllum hugsanlegum ráðum.“ Í grein eftir Margréti Jónsdóttur í Íslensku máli 2003 eru tilfærð nokkur dæmi frá því kringum aldamótin. Nokkur dæmi eru í Risamálheildinni, m.a. „Misstu efnaðan nákominn ættingja sem líklegur er að erfa þig að nokkrum milljónum“ í Viðskiptablaðinu 2013. Í mbl.is 2024 segir: „Ég er að hugsa um að gera erfðaskrá og erfa hann að láninu.“
Það kann að virðast sérkennilegt að nota sömu sögnina bæði um að fá arf og ánafna arfi en hliðstæð dæmi eru þó til í málinu eins og Margrét Jónsdóttir bendir á í áðurnefndri grein. Í setningu eins og ég leigði íbúð á Njálsgötunni getur leigði merkt bæði 'var með á leigu' og 'leigði út'. Í setningu eins og ég lánaði peninga merkir lánaði venjulega 'veitti lán' en er líka stundum haft í merkingunni 'fékk að láni' en það eru trúlega dönsk áhrif. Notkun erfa í merkingunni 'arfleiða' verður hins vegar varla rakin til erlendra áhrifa því að bæði í dönsku og ensku eru mismunandi sagnir hafðar um að 'fá í arf' og 'arfleiða'. Einnig má nefna að sögnin versla merkti áður oft 'selja', síðar 'kaupa og selja' en hefur nú oft merkinguna 'kaupa'.
Í grein Margrétar er bent á að þegar sögnin erfa er höfð í þessari merkingu fylgir henni ýmist forsetningin að eða af enda er þeim forsetningum oft blandað saman. En erfa einhvern að / af einhverju getur aðeins merkt 'arfleiða', aldrei 'fá í arf', þannig að þótt erfa sé notuð í merkingunni 'arfleiða' er sú notkun alltaf aðgreind frá notkun hennar í merkingunni 'fá (í) arf'. Það er ekkert í gerð sagnarinnar erfa sem segir að hún merki frekar 'fá (í) arf' en 'arfleiða' og því er í sjálfu sér ekkert undarlegt þótt hún sýni tilhneigingu til að hafa báðar merkingarnar, rétt eins og leigja. En þrátt fyrir að notkunin í merkingunni 'arfleiða' valdi sjaldnast misskilningi vegna mismunandi setningafræðilegs umhverfis er rétt að halda sig við hefðbundna merkingu.