Þar að segja

Orðasambandið það er að segja er svo algengt að það er sérstök fletta í Íslenskri nútímamálsorðabók, skýrt 'sagt þegar nánari útskýring á því sem áður er komið fylgir á eftir; oft skammstafað þ.e.a.s.'. Það er gamalt í málinu – elsta dæmi um það á tímarit.is er í Norðurfara 1849: „Fyrst hefur það samt líklega verið haft um Frakka, það er að segja hina fornu keltnesku en latínskuðu Galla.“ Alls eru um fimmtíu þúsund dæmi um sambandið á tímarit.is og auk þess um sextíu þúsund um skammstöfun þess, þ.e.a.s. Nokkuð virðist þó hafa dregið úr notkun bæði sambandsins og skammstöfunarinnar á síðustu þremur áratugum eða svo. Að einhverju leyti má rekja það til uppkomu nýs sambands í sömu merkingu, þar að segja.

Í eðlilegum framburði renna þrjú fyrstu orð sambandsins, það er að, yfirleitt saman og verða þara(ð). Önghljóðið ð verður mjög oft veikt eða fellur alveg brott í enda orðs, þannig að það verður þa. Þá eru komin saman tvö áherslulaus sérhljóð, a í þa og e í er, og í slíkum tilvikum fellur annað sérhljóðið nær alltaf brott – útkoman verður þar (það er > þa er > þar). Þetta gerist og er eðlilegt í framburði fólks sem ætlar sér að segja það er að – og telur sig vera að segja það er að. En vegna þess að þar er auðvitað vel þekkt og mjög algengt orð í málinu er skiljanlegt að framburðurinn þara(ð) sé stundum túlkaður sem þar að – þ.e. atviksorðið þar og nafnháttarmerkið . Þegar þar að segja fer að sjást á prenti bendir það til breytts málskilnings.

Elsta dæmi sem ég finn á tímarit.is og bendir til þessa málskilnings er í Alþýðublaðinu 1962: „Þar var mér aftur úthýst, þar að segja stjórnin og þjálfararnir sáu mig aldrei.“ Í Morgunblaðinu 1970 segir: „Setja skal tölustaf – ekki kross – fyrir framan nöfn manna á prófkjörsseðlinum og tölusetja í þeirri röð, sem óskað er að þeir skipi framboðslistann, þar að segja í 5 efstu sæti framboðslistans.“ Í Vísi 1974 segir: „auk þess er hann íþróttakennari við barna og unglingaskóla i Malmö – þar að segja þar til í síðustu viku að hann meiddist.“ Í Foringjanum 1976 segir: „Mótsgjaldið verður mjög stillt í hóf þar að segja aðeins 700 kr.“ Í Lesbók Morgunblaðsins 1977 segir: „Tæknina þar að segja, uppistöðuna og ívafið.“

Sem fyrr segir er skammstöfunin þ.e.a.s. algengari en það er að segja á tímarit.is, og eins og við er að búast er sambandið þar að segja einnig oft skammstafað. Það er reyndar ekki alltaf alveg ljóst fyrir hvað skammstöfunin þ.a.s. stendur, en elsta dæmi sem ég finn þar sem hún gæti staðið fyrir þar að segja er í Viljanum 1958: „Þeir, sem vilja búa í húsi eiga þess kost, þ.a.s. þeir fá rúm með svampdínu gegn vægu verði.“ Í Verkamanninum 1958 segir: „Gerum ráð fyrir að tannskemmdir minnkuðu um þó ekki væri meira en þriðjung þ.a.s. um ca. 120.000 kr.“ Tíðni skammstöfunarinnar eykst hraðar en tíðni þar að segja en stundum er hugsanlegt að hún standi fyrir eitthvað annað. Í Risamálheildinni eru rúm 400 dæmi um þ.a.s.

Sárafá dæmi eru um þar að segja framan af og verulegur hluti þeirra úr skrifum tiltekinna blaðamanna. Um 1990 fer dæmum fjölgandi, og þó einkum eftir aldamót. Í Risamálheildinni eru rúmlega 4.100 dæmi um sambandið, þar af rúm 3.700 af samfélagsmiðlum. Það er því augljóst að þetta er einkenni á óformlegu málsniði en er þó einnig orðið fast í sessi í formlegra máli. Í sjálfu sér er tilurð þessa sambands mjög eðlileg – margar málbreytingar verða einmitt þannig að hlustendur túlka tiltekin orð eða orðasambönd á annan hátt en þau voru hugsuð. Sambandinu þar að segja svipar líka til sambandsins þar að auki. Fólk getur haft misjafnar skoðanir á breytingunni og þessu nýja sambandi, en ég sé enga ástæðu til að amast við því.