Af erlendu bergi brotnu
Orðasambandið af erlendu bergi brotinn var hér til umræðu í gær vegna þess að það virðist vefjast fyrir fólki. Elsta dæmi um það á tímarit.is er frá 1901 en sambandið af X bergi brotinn er þó mun eldra eins og kemur fram hjá Jóni G. Friðjónssyni í Merg málsins – elstu dæmi eru frá því um 1600, úr þýddum trúarritum: „aðrir fleiri af sama bergi brotnir“ og „því að vér erum allir af einu bergi brotnir“. Jón telur að þetta eigi rætur í Biblíunni „og virðist líkingin runnin frá grjóthöggi“ – „Lítið á það hellubjargið sem þér eruð af höggnir“ segir í Jesajabók í Guðbrandsbiblíu frá 1584. Sambandið var lengi frekar sjaldgæft en tíðni þess hefur margfaldast á síðustu þremur áratugum samfara fjölgun fólks af erlendum uppruna á Íslandi.
Eins og títt er um föst orðasambönd er röð orða í sambandinu frábrugðin því sem eðlilegast er í málinu. Forsetningarliður sem á við lýsingarorð eða lýsingarhátt kemur venjulega þar á eftir og venjuleg orðaröð væri því brotinn af erlendu bergi sem er hliðstætt við t.d. slitinn af langvinnu striti en í af erlendu bergi brotinn er forsetningarliðurinn hafður á undan orðinu sem hann á við. Það er hins vegar ekki hægt að segja *af langvinnu striti slitinn (nema í bundnu máli) vegna þess að þar er ekki um fast orðasamband að ræða. En bæði vegna óvenjulegrar orðaraðar og vegna þess að um er að ræða líkingu sem ekki er víst að allir málnotendur átti sig á má búast við að sambandið taki breytingum. Það hefur líka verið að gerast.
Í Morgunblaðinu 1981 segir: „Það kann ýmsum að þykja það nokkuð mikið í fang færst fyrir mann af erlendu bergi brotnu“ (ætti að vera brotinn). Í Tímanum 1993 segir: „Hún sagði hugsanlegt að fólk af erlendu bergi brotnu ætti í meiri erfiðleikum með að fá vinnu“ (ætti að vera brotið). Í DV 1994 segir: „Hér er megn andúð gegn mönnum af erlendu bergi brotnu“ (ætti að vera brotnum). Í Morgunblaðinu 1994 segir: „menn séu farnir að venjast veru þess hér og líki vel það krydd í mannlífið, er tilvist fólks af erlendu bergi brotið á Íslandi færir okkur“ (ætti að vera brotins). Í Helgarpóstinum 1994 segir: „erum við Íslendingar haldnir fordómum í garð útlendinga og annarra af erlendu bergi brotnir?“ (ætti að vera brotinna).
Stundum kemur nefnifall í réttu kyni í stað þeirrar myndar sem við væri að búast eins og í tveimur síðustu dæmunum hér að framan og þá er hægt að hugsa sér að sem er(u) sé undirskilið á undan forsetningarliðnum. Langalgengast er þó að þágufall hvorugkyns sé sett í stað annarra mynda og sagt af erlendu bergi brotnu. Þar er að sjá sem staðsetning forsetningarliðarins af erlendu bergi rjúfi tengslin sem eiga að vera í huga málnotenda á milli lýsingarorðsins og orðsins sem kemur á undan forsetningarliðnum og á að ráða kyni, tölu og falli lýsingarorðsins. Þess í stað virðist nálægasti fallvaldur, forsetningin af, í raun yfirtaka fallstjórnina þannig að lýsingarorðið kemur í þágufalli og hvorugkyni eins og það eigi við hvorugkynsorðið berg.
Á seinustu árum er orðið mjög algengt að myndin af erlendu bergi brotnu komi í stað annarra mynda – í Risamálheildinni eru tæp 300 dæmi um hana og í yfirgnæfandi meirihluta þeirra ætti að vera einhver önnur beygingarmynd en brotnu. Þágufallsmyndum í karlkyni og kvenkyni og eignarfallsmyndum er mjög oft skipt út fyrir brotnu þannig að dæmi eins og af erlendu bergi brotins / brotinni / brotinnar / brotinna eru sárasjaldgæf. Í sjónvarpsfréttum Ríkisútvarpsins 2018 segir: „Mörgum árum síðar kynntist hún annarri konu af erlendu bergi brotnu.“ Á mbl.is 2017 segir: „Fæðingar kvenna af erlendu bergi brotnu námu 27,5% af heildinni.“ Í Netlu 2020 segir: „Mikilvægt er að þróa leiðir til að ná betur til unglinga af erlendu bergi brotnu.“
Í umræðum var einnig nefnt að stundum væri orðasambandið stytt – lýsingarorðinu sleppt og sagt aðeins af erlendu bergi. Þetta er ekki nýtt – elsta dæmi sem ég finn um það er í Tímanum 1961: „Sumt er fólk af erlendu bergi, sem átt hefur hér heima alllengi og er orðið hér fótfast.“ Í Morgunblaðinu 1974 segir: „Aðrir flytjst hingað í þeirra stað, bæði menn af íslenzku og erlendu bergi.“ Í Morgunblaðinu 1979 segir: „Hann er fyrsti maðurinn af erlendu bergi, sem er kjörinn deildarforseti í Háskóla Íslands.“ Í Risamálheildinni er vel á annað hundrað dæma um þetta. Ég get ekki séð neitt athugavert við að stytta sambandið á þennan hátt – líkingin skilar sér fullkomlega þótt lýsingarorðinu sé sleppt en við losnum við vandann við að beygja það.
Hefðbundin beyging sambandsins af erlendu bergi brotinn á greinilega í vök að verjast – samræmist ekki málkennd margra málnotenda og virðist jafnvel hljóma asnalega í eyrum þeirra eftir því sem fram kom í umræðum hér í gær. Þótt myndin af erlendu bergi brotnu sé mjög oft notuð í stað þágufalls- og eignarfallsmynda er hún líka iðulega notuð í stað nefnifalls og þolfalls. Það er ekki raunhæft að halda hefðbundinni beygingu til streitu sem einu viðurkenndu mynd sambandsins og óhjákvæmilegt að viðurkenna af erlendu bergi brotnu sem stirðnaða mynd til hliðar við beygðar myndir – slík stirðnun er auðvitað ekkert einsdæmi. En einfaldasta og besta lausnin er líklega sú að stytta sambandið og sleppa lýsingarorðinu eins og áður segir.