Heimgreiðslur ýta undir málfarslega mismunun

Á síðustu árum hafa nokkur sveitarfélög tekið upp svokallaðar heimgreiðslur til foreldra ungra barna sem ekki hafa fengið leikskólavist eða komist að hjá dagforeldri. Margir foreldrar hafa tekið þessum greiðslum fegins hendi vegna þess að þær auðvelda þeim vitanlega að brúa bilið frá því að fæðingarorlofi lýkur og þar til barnið kemst í skipulagða dvöl utan heimilis. En greiðslurnar hafa einnig verið gagnrýndar vegna þess að þær haldi konum inni á heimilum í stað þess að auðvelda þeim að fara aftur út á vinnumarkaðinn. Sú umræða á ekki heima í þessum hópi en öðru máli gegnir um umræðu um þau áhrif sem þetta fyrirkomulag kann að hafa á máltöku og málþroska barna innflytjenda eins og bent er á í nýrri skýrslu OECD.

Það hefur sýnt sig að hlutfall foreldra sem þiggja heimgreiðslur er hærra meðal innflytjenda en innfæddra. Fyrir því eru auðvitað ýmsar ástæður svo sem lægri tekjur innflytjenda, einkum kvenna, og að þeir hafa oft lítið stuðningsnet og eiga því færri kosta völ í umönnun barna sinna. En þegar innflytjendur sinna börnum sínum heima þýðir það að oft að börnin hafa enga íslensku í málumhverfi sínu og það er því mjög mikilvægt að börn innflytjenda komist sem allra fyrst í leikskóla. Heimgreiðslur létta hins vegar á þrýstingi á sveitarfélög að sjá öllum börnum fyrir leikskóladvöl frá tólf mánaða aldri og stuðla því að aukinni málfarslegri mismunun milli barna sem eiga íslenska foreldra og barna þar sem heimilismálið er annað en íslenska.

Í skýrslunni segir: „Börn innflytjenda sækja síður leikskóla en jafnaldrar þeirra og bilið er að breikka.“ Síðar segir svo: „Leikskólinn skapar mállegt umhverfi þar sem börn innflytjenda geta lært íslensku sem þau læra ekki heima hjá sér og PISA-gögn benda til þess að það sé sérstakur ávinningur fyrir börn innflytjenda að byrja snemma í leikskóla hér á landi. Börn innflytjenda þurfa á mállegri aðstoð að halda í skólanum sem byggir á markvissu tungumálamati. Helmingur barna innflytjenda á Íslandi flokkast sem börn með litla færni í PISA-mati, langt yfir meðaltali OECD-ríkja sem er 30% og aðeins Mexíkó er þar yfir. Þá eru innfædd börn innflytjenda með svipaða, ef ekki verri, færni en jafnaldrar þeirra sem komu til landsins sem börn.

Þetta á ekki aðeins við um PISA-stig heldur einnig brottfall úr framhaldsskóla þar sem brottfall er meira hjá innfæddum börnum innflytjenda en hjá börnum innflytjenda sem koma til landsins fyrir sex ára aldur. Þetta virðist að miklu leyti vera vegna tungumálaerfiðleika þessa hóps. Þó að úrtak innfæddra barna innflytjenda sé of lítið til greiningar er munurinn á PISA-lestrarstigum þeirra innfæddu sem tala íslensku heima og þeirra sem ekki tala íslensku 81 stig, eða meira en þriggja ára skólaganga, mesti munur allra OECD-ríkja. […] Reynsla annarra OECD-ríkja og langtímarannsókn á áhrifum málfærnimats í leikskólum á námsárangur benda til að mat á tungumálakunnáttu geti skilað miklum árangri til að bæta frammistöðu barna innflytjenda.“

Í skýrslu OECD er bent á að reynsla frá öðrum ríkjum OECD sýni að lág leikskólagjöld séu líkleg til að leiða til þess að hærra hlutfall barna innflytjenda sæki leikskóla. Há leikskólagjöld og of fá leikskólapláss vinna því beinlínis gegn íslenskunámi og inngildingu barna innflytjenda. Þess vegna er lagt til í skýrslunni að heimgreiðslur til foreldra verði afnumdar og dregið úr hækkun leikskólagjalda í þeim tilgangi að auka leikskólasókn barna innflytjenda. Heimgreiðslur og há leikskólagjöld vinna gegn íslenskunámi innflytjendabarna á máltökuskeiði og stuðla þar með að því að búa hér til alvarlega málfarslega stéttaskiptingu sem á endanum mun kosta okkur margfalt meira en fjölgun ódýrra leikskólaplássa.