Barist við vindmyllur

Í gær var hér spurt hvort ekki þyrfti að „finna gott nafn á svokallaðar vindmyllur“ til rafmagnsframleiðslu, enda mali þær ekki neitt. Það er vissulega rétt að orðið mylla, sem er tökuorð eins og langa l-ið bendir til, er skylt sögninni mala en orðið vindmylla – sem væntanlega hefur verið tekið inn í málið úr dönsku enda vindmyllur mun eldri í Danmörku en á Íslandi – er þó notað í mun víðari merkingu en sá uppruni gefur tilefni til. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er það skýrt 'tæki sem knúið er af vindi (með því að láta hann snúa vængjahjóli) og afkastar þannig ýmiss konar vinnu'. Þarna er aðaláherslan sem sé á hin útlitslegu einkenni, vængjahjólið (spaðana), en ekki á þá sértæku nýtingu sem upphaflega fólst í seinni lið orðsins.

Það er engin nýjung að nota vindknúin vængjahjól til að framleiða orku sem nýtt er á ýmsan hátt – ekki bara til að mala korn. Í Hollandi hafa vindmyllur t.d. lengi verið notaðar til að dæla vatni til áveitu og uppþurrkunar. En þótt orðið windmolen sem notað er þar í landi um slík mannvirki til orkuframleiðslu – sem og orðið windmill sem notað er á sama hátt í ensku – samsvari íslenska orðinu vindmylla ræður það vitanlega ekki merkingu orðsins í íslensku. Merking orða sem eiga sér sama uppruna þróast oft á ólíkan hátt í skyldum tungumálum vegna mismunandi aðstæðna og þess vegna gæti notkun orðsins vindmylla í íslensku vel verið takmörkuð við hina bókstaflegu merkingu, enda fyrirbærið alltaf verið sjaldgæft hér.

Dæmin sýna samt að orðið vindmylla hefur lengi verið notað í víðri merkingu í íslensku, á svipaðan hátt og samsvarandi orð í skyldum málum. Í Lögbergi 1903 segir: „Talsvert er þar af vel hirtum skógi, […] vindmylla sem rekur viðarsög, vatnsdælu og söxunarjárn.“ Í Norðurlandi 1906 segir: „af því vatnsþrýstingurinn er ekki nægur, er vindmylla látin dæla vatninu upp í vatnsþró.“ Í Vestra 1906 segir: „Vatnið er tekið úr brunni sem grafinn var 45 m. á dýpt, oger það dælt upp úr honum með vindmyllu.“ Í Fjallkonunni 1906 segir: „Hann er vísindamaður mikill og er nafnkunnur fyrir tilraunir, sem hann hefir gert til þess að nota vindinn sem hreyfiafl í vinnuvélum. Í Askov er afarmikil vindmylla, sem hann notar í þessu skyni.“

Víða kemur beinlínis fram að vindmylla sé notuð til rafmagnsframleiðslu. Í Austra 1896 segir: „Við létum vindmylluna búa til elektriskt ljós og gekk það vel.“ Síðar sama ár segir í sama blaði: „Rafurmagnsljósið á skipinu var framleytt með vindmyllu.“ Í Fjallkonunni 1903 segir: „Hann hefur nú um all mörg ár fengizt við tilraunir með vindmyllur, bæði til að framleiða rafurmagn, og svo til að nota vindinn í sambandi við mylluna til að snúa og hreyfa ýmsar vélar.“ Í Lögréttu 1906 segir: „Í Vallekildelýðháskóla er líka raflýsing, sem vindmylla eftir la Cour framleiðir.“ Í Suðurlandi 1913 er sagt frá hugmyndum um rafmagnsframleiðslu „fyrir kauptúnin hérna“ og ein þeirra er: „Tvær stöðvar, sín í hvoru þorpi, með vindmyllum.“

Oft bent á að í stað orðsins vindmylla sé rétt að nota orðin vindrafstöð eða vindrella um vindknúið tæki til rafmagnsframleiðslu eins og lengi hafi verið gert. Orðið vindrella er skýrt 'verkfæri með spöðum sem snúast í vindi (notað til vindhraðamælinga, raforkuframleiðslu og sem leikfang)' í Íslenskri orðabók. Elsta dæmi um það er í Heimi 1904: „þá er mjög létt úr því að halda áfram ofan í móti og verða að sannfæringarlausri vindrellu, er snýst með öllum áttum.“ Þarna er orðið greinilega notað í merkingunni 'vingull' og sama gildir um flest eldri dæmi um orðið. Elsta dæmi um það í merkingunni ‚tæki til rafmagnsframleiðslu‘ er í Heilbrigðisskýrslum 1941: „Á 1 heimili hefur verið raflýst með ,,vindrellu“, og í ráði er, að þær komi á fleiri heimili.“

Elsta dæmi um orðið vindrafstöð er í Tímariti Verkfræðingafélags Íslands 1919: „Menn sáu að vísu af fenginni reynslu að sjerstæðar vindrafstöðvar borguðu sig óvíða.“ Orðið er einnig flettiorð í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924. Þetta er vitanlega gott og gilt orð, en eftir stendur að elsta orðið um 'vindknúið mannvirki með spöðum nýtt til rafmagnsframleiðslu' er vindmylla sem fyrst kemur fyrir í þessari merkingu 1896 eins og áður segir. Það er að sjálfsögðu mjög algengt og fullkomlega eðlilegt að merking orða breytist með tímanum og hætti að vera „rökrétt“ miðað við upprunann – það er ekki lengur þörf á orðinu í upphaflegri merkingu. Andstaða við að nota orðið vindmylla í þessari merkingu er sannkölluð barátta við vindmyllur.