Inngilding, samþætting, rótfesting – ekki aðlögun
Í fyrirsögn á frétt um nýja skýrslu OECD um málefni innflytjenda á Íslandi á vef Stjórnarráðsins segir: „Mikilvægt að setja inngildingu innflytjenda á dagskrá.“ Nafnorðið inngilding, sögnin inngilda og lýsingarorðið inngildandi eru svo notuð nokkrum sinnum í fréttinni sjálfri. Þessi orð eru ekki gömul í málinu en hafa verið notuð töluvert á undanförnum árum og eru að verða sæmilega þekkt – inngilding er þýðing á enska orðinu inclusion og felur í sér „að allir fái notið sín, óháð uppruna, kyni, hæfni eða fötlun, í skóla, á vinnumarkaði eða á öðrum vettvangi, og séu viðurkenndir sem fullgildir þátttakendur“ eins og segir í orðasafni í menntunarfræði í Íðorðabankanum. Þetta er þó ekki endilega heppilegasta orðið í þessu samhengi.
Orðið sem notað er í skýrslunni er nefnilega ekki inclusion heldur integration sem merkir 'the action or process of successfully joining or mixing with a different group of people' eða 'sú athöfn eða ferli að sameinast eða blandast við annan hóp fólks á farsælan hátt'. Þótt þetta sé vissulega mjög skylt inngildingu er áherslan í því orði fremur á að engin séu skilin útundan. Eðlileg íslensk samsvörun við integration er því fremur samþætting – ferlið miðast að því að samþætta innflytjendur og þau sem fyrir eru í landinu, búa til eina samstæða heild. Einnig hefur verið stungið upp á að nota sögnina rótfesta og nafnorðið rótfestingu um þetta ferli – við viljum að innflytjendur festi rætur í íslensku samfélagi og auðgi það á ýmsan hátt.
Í umræðu um skýrsluna hefur hins vegar stundum verið talað um aðlögun innflytjenda, t.d. í Morgunblaðinu. Það er óheppilegt orðalag því að það felur í sér að innflytjendur þurfi að laga sig að íslensku þjóðfélagi á forsendum þeirra sem fyrir eru í stað þess að aðlögunin sé gagnkvæm, þ.e. samþætting. Það er ekki til þess fallið að hvetja innflytjendur til samþættingar við íslenskt þjóðfélag og þarna mættum við líta í eigin barm – við viljum nefnilega fá að halda okkar siðum og sérkennum sem innflytjendur annars staðar. Nýlega lýsti dómsmálaráðherra t.d. sérstakri aðdáun á því „hversu margir Vestur-Íslendingar virðast leggja meiri áherslu á að viðhalda tungu og menningu en margir á Íslandi“. Notum ekki orðið aðlögun í þessu sambandi.