Heimilispersóna

Eftir að umræða um breytingar á íslensku máli í átt til kynhlutleysis fór á flug fyrir fáum árum virðast andstæðingar þessara breytinga oft sjá skrattann í hverju horni og fordæma ýmislegt sem jafnvel hefur tíðast lengi í málinu vegna þess að þeir telja að um sé að ræða „afkynjun“ tungumálsins. Skýrt dæmi um þetta mátti sjá í innleggi í Málvöndunarþættinum í dag: „Heimilispersóna – nýjasta í atlögunni að tungumálinu – Mogginn í gær.“ Þar var greinilega vísað í fyrirsögn í Morgunblaðinu: „Saumavél var eins og heimilispersóna.“ Þetta er tilvitnun í viðmælanda blaðsins sem hefur rannsakað sögu saumavéla á Íslandi og segir: „Saumavélin var eins og heimilispersóna, svo eðlilegur hlutur þótti hún fljótlega upp úr aldamótum.“

Í umræðunni í Málvöndunarþættinum var reyndar bent á að orðið er ekki nýtt – í Ritmálssafni Árnastofnunar eru skráð tvö dæmi um það, frá sautjándu og átjándu öld. Elsta dæmið er þó í bréfi frá 1660 sem er prentað í Blöndu 1918: „Og meðkendu þær heimilispersónur, sem þar voru þá, fyrir prestinum og oss, sem greptran veittum hennar líkama, að síra Eiríkur Hallsson hefði þar ei heima verið, þá hennar afgangur skeði.“ Í Lögbergi 1916 segir líka: „Þessar tvær heimilispersónur voru henni mjög góðar.“ Ýmsir þátttakendur í umræðunni voru samt sárhneykslaðir og spurðu hvort ekki mætti lengur tala um heimilisfólk, hvort það væri of særandi fyrir einhverja. En notkun orðsins heimilispersóna í áðurnefndri grein á sér eðlilega skýringu.

Í meistararitgerð viðmælanda Morgunblaðsins um saumavélar á Íslandi er nefnilega vitnað í svar konu fæddrar 1911 við spurningaskrá Þjóðminjasafnsins frá 1990 um fatnað og sauma (svarið birtist einnig í Iðnnemanum 1999): „Því miður þrýtur hér vitneskju mína um þennan þarfahlut sem í barnsaugum mínum var nánast sem ein heimilispersónan.“ Þetta er vissulega óvenjulegt orðalag, og einmitt þess vegna er ekkert undarlegt að viðmælandi blaðsins noti það í frásögn sinni – og ekki er heldur óeðlilegt að það sé tekið upp í fyrirsögn vegna þess að einn tilgangur fyrirsagna er að vekja forvitni og fá fólk til að lesa meira. En þetta hefur sem sé engin tengsl við kynhlutlaust mál – ekki frekar en margt annað sem reynt er að klína á það.