Skipulög, þjóðskipulög og deiliskipulög

Ég var spurður hvort hægt sé að nota orðið skipulag í fleirtölu. Í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls er aðeins gefin eintala orðsins, og í Málfarsbankanum segir: „Orðið skipulag er kvenkynsnafnorð í eintölu.“ Í Íslenskri nútímamálsorðabók er orðið skýrt 'fast form, regla, kerfi' með dæminu með góðu skipulagi er hægt að ljúka verkinu á skömmum tíma; og 'tilhögun' með dæminu skipulag svæðisins er unnið í samvinnu við heimamenn. Skýring og notkunardæmi í Íslenskri orðabók eru mjög svipuð. Þegar orðið hefur almenna vísun til hugmynda eða óhlutstæðrar tilhögunar er eðlilegt að það sé ekki haft í fleirtölu. Hins vegar vísar það oft til einstakra kerfa, áætlana, uppdrátta og slíks, sem oft getur þurft að tala um í fleirtölu.

Tvö dæmi eru um fleirtöluna í Ritmálssafni Árnastofnunar. Í Eimreiðinni 1924 segir: „Nú votta vísindi, að skipulög hinna örsmáu frumeinda virðist alveg eins og skipulög sólkerfis.“ Í Iðunni 1929 skrifar Halldór Laxness: „síðan hafa þessi skipulög blómstrað í ákveðnum stofnunum.“ Í Morgunblaðinu 1931 segir: „Það hafa jafnvel verið gerð skipulög yfir heil hjeruð.“ Í fyrirsögn í Rauða fánanum 1931 segir: „Tveir heimar – tvö skipulög.“ Í Verklýðsblaðinu 1932 segir: „það skipulag […] ætti fyrir sér eins og öll eldri skipulög að líða undir lok.“ Í Vísi 1936 segir: „Sýning á skipulögum verður opnuð í Miðbæjarbarnaskólanum eftir hádegi á morgun.“ Í Stúdentablaðinu 1942 segir: „Öll skipulög á mannfélaginu eru verk mannanna sjálfra.“

Fjöldi nýlegra dæma er líka til. Í Fréttablaðinu 2011 segir: „Það eru til mörg skipulög á námi barna og unglinga.“ Í Fréttablaðinu 2012 segir: „Fyrirséð er að þessi skipulög geta beinlínis valdið skorti.“ Í Morgunblaðinu 2013 segir: „alltaf er hægt að komast í tæri við lifandi verk, skipulög og jafnvel framtíðarsýn fyrir ákveðin svæði.“ Í Bæjarins besta 2014 segir: „Ætlunin sé að ljúka við önnur skipulög.“ Í Austurglugganum 2014 segir: „norðanmenn vilja, samhliða þessu, setja Sprengisand inn á sín skipulög.“ Í Bændablaðinu 2014 segir: „En þeir Mollison og Holmgren settu fram mjög skipulega skipulögð skipulög.“ Í Skessuhorni 2015 segir: „Sveitarstjórn Borgarbyggðar hefur samþykkt að auglýsa eftirfarandi skipulög.“

Í þessum dæmum hefur skipulag ýmist merkinguna 'kerfi, þjóðfélagsskipan' eða 'skipulagsuppdráttur, skipulagsstefna' eða eitthvað slíkt. Þar þarf oft að tala um fleira en eitt eintak eða tilvik af því sem orðið vísar til og því óheppilegt ef ekki er hægt að nota orðin í fleirtölu. Fleirtalan er líka algeng í samsetningum eins og þjóðskipulög og deiliskipulög – elsta dæmi um það fyrrnefnda er frá 1925 en um það síðarnefnda frá 1967. Niðurstaðan er því sú að það er ekkert að því að nota orðið skipulag í fleirtölu og tala um skipulög. Fleirtalan á sér hundrað ára hefð, hefur töluvert verið notuð, og er merkingarlega fullkomlega eðlileg þegar orðið vísar til einstakra kerfa, skipulagsuppdrátta, stefnuplagga eða slíks. Hún telst ótvírætt rétt mál.