Skynsöm ákvörðun

Á fyrstu vikum þessa hóps fyrir fjórum árum var hér spurt hvort ætti að tala um skynsama ákvörðun eða skynsamlega ákvörðun. Ég svaraði því til að venjulega vísaði skynsamur til þess sem tæki ákvörðunina, ekki ákvörðunarinnar sjálfrar. Þetta er í samræmi við skýringu orðanna í Íslenskri nútímamálsorðabók – þar er skynsamur skýrt 'sem tekur rökréttar ákvarðanir, sem stjórnast af skynsemi' en skynsamlegur er skýrt 'sem ber vott um skynsemi'. Í dálknum Málið í Morgunblaðinu 2014 segir líka: „Nú orðið tökum við „skynsamar“ ákvarðanir dögum oftar. Hættum því. Að vera skynsamur getur aðeins gilt um manneskju; þann „sem tekur rökréttar ákvarðanir“. Skynsamlegur er rétta lýsingarorðið um þær ákvarðanir okkar sem vit þykir í.“

En við nánari athugun reynist þetta ekki vera svona einfalt. Það hefur nefnilega tíðkast lengi að nota skynsamur um annað en fólk – ákvarðanir, hugmyndir, lög, reglur, tillögur o.fl. Í Skírni 1829 segir: „greidir þannig veg betri og skynsamari sannfæríngu eptirleidis.“ Í Skírni 1831 segir: „hefir hann lofað að mæla fram með skynsamri umbreytíngu á parlamentinu.“ Í Skírni 1832 segir: „þjóðar-andinn hefir tekið frjálsari og skynsamari stefnu, enn híngaðtil“ og „hvörsu miklu hollara og skynsamara það reyndar er, að fylgja með og láta eptir tíðarandanum“. Í Fjölni 1835 segir: „egi þessar framkvæmdir að verða skynsamar og arðsamlegar.“ Í Ársriti presta í Þórsnesþingi 1846 segir: „þá snúast allir strax að því ráðinu, sem er betst og skynsamast.“

Þessi notkun orðsins skynsamur var því talsvert algeng þegar á fyrri hluta nítjándu aldar – en hún var ekki óumdeild frekar en nú og hefur e.t.v orðið fyrir barðinu á málhreinsun þegar leið á öldina. Í Suðra 1884 segir: „Þingin hér fylgja nefnilega þeirri skynsömu reglu.“ Í vísun í þessa grein í Þjóðólfi sama ár segir: „Fyrst fræðir hann oss á, að það sé skynsöm (á líkl. að vera: skynsamleg) regla.“ Í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 eru bæði skynsamur og skynsamlegur þýdd með sama danska orðinu, fornuftig, og vitanlega er ekki ólíklegt að sú staðreynd að danska orðið dekkar merkingu beggja íslensku orðanna hafi stuðlað að notkun orðsins skynsamur í merkingu sem sumum fannst að eingöngu skynsamlegur ætti að hafa.

Hvað sem þessu líður er ljóst að skynsamur hefur alla tíð verið nokkuð notað í sömu merkingu og skynsamlegur og sú notkun er talsvert algeng í nútímamáli. Vissulega hefur því verið haldið fram að orð sem enda á -samur vísi oftast til fólks en orð sem enda á -samlegur til athafna, ákvarðana o.þ.h. Þessu til stuðnings var bent á að mótmæli gætu verið friðsöm en mótmælendur hins vegar friðsamlegir. Það eru samt gömul dæmi um friðsamur tími, friðsamt tímabil og fleira þess háttar, og ýmis orð sem endar á -samur eru bæði notuð um fólk og athafnir eða skoðanir, svo sem gamansamur, hávaðasamur, íhaldssamur o.fl. Það er tvö hundruð ára hefð fyrir því að nota skynsamur í þessari merkingu – það er rétt mál sem engin ástæða er til að amast við.