Að varsla skotvopn

Í gær vitnuðu bæði mbl.is og Vísir í tilkynningu á vef Lögreglunnar í gær þar sem segir: „Sömuleiðis eru nokkur brögð að því að í fórum manna finnist gömul skotvopn sem í flestum tilfellum reynast hafa komið „frá afa“ en eru ekki skráð á þann sem varslar þau. Afar mikilvægt er að skotvopnaleyfishafar séu meðvitaðir um að óheimilt er að varsla skotvopn án tilskilinna leyfa.“ Þarna er sögnin varsla notuð tvisvar og í  hópnum Skemmtileg íslensk orð var spurt hvort fólk kannaðist við hana. Sögnina er hvorki að finna í Íslenskri orðabók Íslenskri nútímamálsorðabók en eitt dæmi um lýsingarháttinn varslaður er í Ritmálssafni Árnastofnunar: „Umhyggjusamlega var hann varslaður þessi blettur“ segir í Andvara 1962.

Í þessu dæmi er verið að tala um afgirtan blett og varslaður merkir greinilega 'varinn' en sú merking kemur ekki fram í öðrum dæmum. Næstelsta dæmi sem ég finn um orðið er úr ræðu á Alþingi 1987: „Ef menn fara yfir þann lista um alla þá sjóði sem varslaðir hafa verið í Seðlabankanum.“ Hér merkir varslaðir augljóslega 'varðveittir' og sama máli gegnir um öll yngri dæmi að því er virðist. Í Austra 1997 segir: „verður leitað tilboða frá til þess bærum aðilum, að varsla þessa peninga og ráðstafa þeim.“ Í Morgunblaðinu 1998 segir: „Átekin myndbönd skulu vörsluð í læstri hirslu og geymd í 30 daga.“ Í Morgunblaðinu 2003 segir: „menn sem séð hafi um að taka á móti fíkniefnunum, varsla þau og koma þeim í verð.“

Undanfarin tuttugu ár hefur sögnin varsla verið nokkuð notuð, einkum í dómum og lagafrumvörpum þar sem talað er um að varsla fíkniefni, varsla barnaklám, varsla skotvopn o.fl. En sögnin er einnig nokkuð notuð í fréttum fjölmiðla af dóms- og lögreglumálum, sem og fjármálafréttum – talað er um að varsla fé, varsla lífeyrissparnað, varsla skuldabréf o.fl. Í öllum tilvikum er verið að tala um varðveislu og því má spyrja hvort einhver þörf sé á sérstakri sögn – hvort ekki mætti einfaldlega nota sögnina varðveita. En varsla merkir ekki alveg það sama – í henni felst að varðveislan sé tímabundin og oftast í einhverjum sérstökum tilgangi öðrum en bara varðveita það sem um er að ræða. Þetta er gagnsæ og lipur sögn sem sjálfsagt er að nota.