Klikka og klíka
Orðið klíka er vel þekkt í málinu í merkingunni 'óopinber lokaður félagsskapur í kringum hagsmuni eða áhugamál' eins og það er skýrt í Íslenskri nútímamálsorðabók. Í innleggi í hópnum Skemmtileg íslensk orð var nefnt að kona fædd á nítjándu öld sem innleggshöfundur þekkti hefði notað orðmyndina klikka í staðinn fyrir klíka. Báðar myndirnar eru reyndar gefnar í Íslenskri orðsifjabók: „klíka, klikka kv. (19. öld) 'þröngur, lokaður hópur'. To. úr d. klik(e), klikke (s.m.) < fr. clique (s.m.)“ („s.m.“ þýðir hér „sama merking“). Myndirnar klikka og klíka virðast hafa komið inn í málið á svipuðum tíma og hafa verið notaðar nokkuð jöfnum höndum í upphafi en eftir aldamótin 1900 sótti klíka í sig veðrið og hefur verið mikið notuð síðan.
Elsta dæmi um klíka í Ritmálssafni Árnastofnunar er í bréfi frá 1882: „að klíkan muni vera biksvört af ergelsi.“ Elsta dæmið á tímarit.is er í Þjóðólfi 1884: „sá, sem væri illa þokkaðr hjá fógeta eða assessórum eða einhverri »klíku«, sem þeir væru í.“ Elsta dæmi sem ég finn um klikka á tímarit.is er í Þjóðólfi 1882: „konungurinn […] sé ekki orðinn annað en leikbrúða í höndunum á býrókratisku klikku-félagi.“ Í bréfi til Tryggva Gunnarssonar frá Finni Jónssyni í Þjóðólfi 1884 segir: „Á fundi í klikkufélagi yðar sögðuð þér, að yðr væri persónulega ekkert um sameining“ og „þér og yðar klikka hefir sýnt deginum ljósara óvæga drottnunargirni.“ Upp úr 1900 fór klikka að láta undan síga – sést lítið eftir 1930 og er nær horfin um miðja öldina.
Í dönsku er orðið ýmist borið fram [ˈkligə] með stuttu sérhljóði eða [ˈkliːgə] með löngu. Eðlilegt er að Íslendingar skynji stutta sérhljóðið sem i og lengi lokhljóðið (og geri það aðblásið) á eftir því. Aftur á móti er eðlilegt að langa sérhljóðið sé skynjað sem í. Tvímyndirnar klikka og klíka virðist því mega rekja beinlínis til mismunandi framburðar orðsins í dönsku en mismunandi ritmyndir gætu einnig hafa haft áhrif – í Ordbog over det danske Sprog er myndin klike gefin sem aðalmynd en sagt „ogs. skrevet Klikke“. Það er því skiljanlegt að tvær myndir orðsins hafi komist inn í íslensku, en aftur á móti er óljóst hvers vegna klíka varð ofan á en klikka hvarf. Hugsanlega hefur það haft einhver áhrif að sögnin klikka var til í málinu í óskyldri merkingu.