Fólkið talar vel um hvert annað
Orðið fólk er að því leyti sérkennilegt að það hefur eintöluform en fleirtölumerkingu. Þetta veldur stundum vandkvæðum, t.d. þegar orðið er notað með gagnverkandi fornafninu hvert/hvort annað. Í Málfarsbankanum segir: „Ekki er hægt að nota hvorugkynsmyndirnar hvert og hvort um hvorugkynsorð sem eru eintölubundin, t.d. fólk. Fólkið er hvað öðru vitlausara, fólkið lemur hvað annað […].“ Þetta rímar við það sem segir í kverinu Gætum tungunnar frá 1984: „Sagt var: Fólkið í dalnum talaði vel hvert um annað. RÉTT VÆRI: Fólkið … talaði vel hvað um annað.“ En ef málstaðlinum er fylgt út í æsar er í raun og veru alls ekki hægt að nota gagnverkandi fornafn með orðinu fólk – hvorki hvert annað né hvað annað.
Ástæðan er sú að þetta samband krefst þess að hægt sé að brjóta frumlagið upp í einstaklinga sem hver um sig gerir það sem í sögninni felst við hina einstaklingana sem vísað er til. Þannig merkir börnin stríddu hvert öðru 'sérhvert barn stríddi hinum börnunum' (t.d. Jón stríddi Gunnu og Siggu og Gunna stríddi Jóni og Siggu og Sigga stríddi Jóni og Gunnu). Eintalan hvert vísar þá til hvers einstaks barns. En þetta er augljóslega ekki hægt að gera við fólkið stríddi hvað öðru – það er ekki hægt að brjóta orðið fólkið á sama hátt upp í einstaklinga sem eintalan hvað geti vísað til. Þess vegna hlýtur hvað að vísa til alls þess mengis sem felst í orðinu fólkið og þar með merkir þetta að fólk hafi líka strítt sjálfu sér – sem er augljóslega ekki það sem átt er við.
Það er því merkingarlega óeðlilegt að hvað vísi til fólkið í setningu eins og fólkið stríddi hvað öðru og það þýðir að málfræðileg vísun er útilokuð þarna vegna þess að hvað hefur ekkert annað hvorugkynsorð að vísa til. En vísun fornafna er ekki alltaf málfræðileg, til tiltekinna orða í setningarlegu umhverfi þeirra – hún getur líka verið merkingarleg, út fyrir málið og beint til þeirra sem verið er að tala um. Í þessu tilviki er eðlilegt að líta svo á að vísunin í hvað sé merkingarleg – vísað sé til hvers einstaklings í hópi fólksins en ekki til orðsins fólk. En vegna þess að hvað vísar yfirleitt ekki til fólks heldur til hluta, hugmynda og annarra óhlutstæðra fyrirbæra liggur beinast við að nota myndina hvert og segja fólkið stríddi hvert öðru.
Hvað sem þessu líður er ljóst að það er löng hefð fyrir því að nota hvert annað með fólk. Í Fálkanum 1941 segir: „kvenfólkið sagði kanske meira um hvert annað en það vissi.“ Í Vísi 1941 segir: „fólkið datt eins og hráviði um hvert annað.“ Í Heimilisritinu 1943 segir: „fólk sem talar ólík tungumál, trúir fljótlega hinu versta hvert um annað.“ Í Bæjarblaðinu 1953 segir: „Samstarfsfólki fer ekki vel að bera út sögur hvert um annað.“ Í Morgunblaðinu 1956 segir: „Ruddist fólk hvert um annað með ópum og látum.“ Það er ljóst að hvert annað er margfalt algengara með fólk en hvað annað, einkum á þessari öld – og með forsetningum eins og um og við er röðin <forsetning> hvert annað algengari en hvert <forsetning> annað.
Í Gætum tungunnar er líka að finna annað dæmi um gagnverkandi fornafn með fólk: „Sagt var: Fólkinu þykir vænt hvert um annað. RÉTT VÆRI: Fólkinu þykir vænt hverju um annað.“ Þarna er vitanlega verið að leiðrétta fallið en ekki verður betur séð en þetta sé alveg hliðstætt við fólkið talaði vel hvert um annað sem er talið rangt. Vissulega eru til tvær myndir, hvað og hvert, í nefnifalli og þolfalli en í þágufalli aðeins ein, hverju – en ef hægt er að vísa til fólkinu með myndinni hverju sé ég ekki hvers vegna ekki ætti að vera hægt að vísa til fólkið með myndinni hvert. Vegna langrar hefðar er auðvitað rétt mál að nota hvað annað með fólk þótt það sé í raun ekki „rökrétt“, en það er ekki síður rétt – og í raun mun eðlilegra – að nota hvert annað.