Hvað má íslenskan kosta?
Eins og kom hér fram í gær hefur litháíska þingið samþykkt lög sem skylda fyrirtæki og fólk í þjónustugreinum til að nota litháísku í samskiptum við viðskiptavini frá og með ársbyrjun 2026, þ.e. eftir rúmlega ár. Þetta er forvitnilegt fyrir okkur vegna þess að iðulega er kallað eftir því að fólk í þjónustustörfum tali íslensku, og í áformum stjórnvalda um breytingar á lögum um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls, sem nú eru til umsagnar í samráðsgátt, er því velt upp hvort ástæða sé að víkka út gildissvið laganna þannig að þau nái líka til einkaaðila. Í greinargerð með litháísku lögunum segir að litháískir ríkisborgarar eigi rétt á að fá þjónustu á opinberu máli landsins, og vitanlega er óboðlegt að víða á Íslandi sé ekki hægt að fá þjónustu á þjóðtungunni.
Úr því að þörf þykir á að setja lög af þessu tagi í Litháen þar sem um 7% íbúanna eru af erlendum uppruna mætti ætla að þörfin væri mun meiri á Íslandi þar sem hlutfallið er næstum þrefalt hærra – nálgast 20%. En þessi fjöldi veldur því vitanlega að sambærileg lagasetning yrði margfalt erfiðari og afdrifaríkari hér en þar vegna þess mikla fjölda fólks sem hún tæki til og þeirra gífurlegu áhrifa sem hún hefði í þjónustugreinum. Vandinn er líka dálítið annars eðlis hér en þar – í greinargerð með litháísku lögunum segir að notkun rússnesku í þjónustugreinum fari vaxandi í landinu sem sé vandamál því að 40% þjóðarinnar skilji ekki rússnesku. Á Íslandi er notkun ensku í þjónustugreinum mjög mikil en hins vegar skilja langflestir Íslendingar ensku.
Þótt lögin hafi verið samþykkt mótatkvæðalaust á litháíska þinginu hafa ýmsar efasemdaraddir einnig heyrst. Dómsmálaráðherra landsins benti á að lögin gætu bitnað á þeim sem stæðu höllustum fæti á vinnumarkaði, og fulltrúi neytendasamtaka taldi kröfur um litháískukunnáttu óþarfar enda bærust ekki margar kvartanir vegna misskilnings. Sumir atvinnurekendur segja að lögin muni hafa neikvæð áhrif á efnahag landsins, samkeppnishæfi og viðskiptaumhverfi, og geti leitt til skorts á vinnuafli í ákveðnum atvinnugreinum. Reyndar var við endanlega afgreiðslu laganna ákveðið að þau tækju ekki til fólks sem vinnur ekki reglulega við þjónustustörf, t.d. selur vörur á samkomum eða útihátíðum, en þarna virðast vera ýmis túlkunaratriði.
Það hlýtur að vera hlutverk og skylda íslenskra stjórnvalda að bregðast við mikilli enskunotkun í þjónustugreinum. Það er hins vegar álitamál hvort lagasetning er rétta leiðin en ef sú leið yrði farin þyrfti að gera margvíslegar ráðstafanir til að lögin yrðu framkvæmanleg. Í fyrsta lagi þyrfti mun lengri aðlögunartíma en í Litháen – að öðrum kosti myndi þjóðfélagið stöðvast. Í öðru lagi þyrfti að stórauka framboð á íslenskunámskeiðum og gera fólki kleift að stunda íslenskunám á vinnutíma. Ýmislegt fleira væri hægt að gera, en þrátt fyrir að allt yrði gert til að auðvelda fólki íslenskunám er ljóst að slíkt nám krefst alltaf umtalsverðs tíma og andlegrar orku sem ekki er líklegt að fólk sem kemur hingað til að vinna í stuttan tíma sé tilbúið að leggja af mörkum.
Ég efast því um að lagasetning af þessu tagi væri raunhæf, en önnur möguleg leið væri sú að í stað þess að gera kröfu um íslenskukunnáttu einstaks starfsfólks væri gerð krafa um að alltaf og alls staðar sé hægt að fá afgreiðslu á íslensku. Með þessu móti væri ábyrgðin ekki lögð á starfsfólkið heldur atvinnurekendur og vinnustaði sem yrðu að sjá til þess að alltaf væri einhver íslenskumælandi við störf. Þetta gæti leitt til þess að starfsfólk sem byggi yfir íslenskukunnáttu yrði eftirsótt – og gæti þá væntanlega gert launakröfur í samræmi við það. Vitanlega yki þetta kostnað fyrirtækja sem sjálfsagt yrði velt út í verðlagið og almenningur yrði á endanum að borga. En þá kemur stóra spurningin sem við þurfum öll að svara: Hvað má íslenskan kosta?