Hissa, hissari, hissastur

Í innleggi hér í dag sagðist hópverji hafa rekist á miðstigið hissari í þýddum reyfara, og fundið nokkur dæmi um það í Ritmálssafni Árnastofnunar, m.a. frá Halldóri Laxness. Lýsingarorðið hissa á það annars venjulega sameiginlegt með öðrum lýsingarorðum sem enda á -a að koma aðeins fyrir í einni mynd í stað þess að stigbreytast og beygjast í kynjum, tölum og föllum eins og lýsingarorð gera annars. Þetta eru nær eingöngu samsett orð eins og sammála, gjaldþrota, einhliða, einnota, samferða, viðlíka, hágæða, fullvalda, andvaka, vélarvana og fjölmörg önnur. Merking margra þessara orða er þess eðlis að það er ekki við því að búast að þau stigbreytist – það er ekki hægt að vera *meira gjaldþrota, *meira einnota, *mest samferða o.s.frv.

En hissa sker sig úr hópnum á tvennan hátt – annars vegar með því að vera ósamsett, og hins vegar með því að vera merkingarlega eðlilegt að stigbreytast. Það er enginn vandi að vera meira hissa og mest hissa og um það eru ótal dæmi. „Enginn var meira hissa eða reiðari en ég þegar við fundum ekki vopnin“ segir í Morgunblaðinu 2010, og „Ég er mest hissa á því hvað allt er dýrt“ segir í Feyki 2020. Þess vegna er kannski engin furða að orðið sé stundum stigbreytt á venjulegan hátt, með hefðbundnum endingum miðstigs og efsta stigs -ari og -astur. Elsta dæmi um þetta, undir fyrirsögninni „Málblóm“, er í Lesbók Morgunblaðsins 1932: „Þeir urðu altaf hissari og hissari, og ekki mátti á milli sjá hver hissastur varð.“

Fyrirsögnin sýnir að verið er að hneykslast á þessari stigbreytingu, og flest af þeim rúmlega 70 dæmum sem eru um miðstigið og efsta stigið á tímarit.is eru greinilega notuð í gamni og oft innan gæsalappa. Stundum er beinlínis vísað í þetta sem barnamál, eins og í Morgunblaðinu 2016: „Ég varð „alltaf hissari og hissari“, eins og krakkarnir segja.“ Þó eru til dæmi sem ekki bera það sérstaklega með sér að vera notuð í gamni, t.d. „Maður var bara hissari því fleira sem sagt var“ í leikdómi eftir Ólaf Jónsson bókmenntafræðing í DV 1979. Ólafur mun reyndar hafa þýtt reyfarann sem vitnað var til í upphafi sem bendir til þess að honum hafi verið þessi stigbreyting eðlileg, hvort sem hann hefur tekið hana meðvitað upp eða ekki.

Eins og áður var nefnt kemur miðstigið hissari fyrir hjá Halldóri Laxness – raunar í þremur skáldsögum hans, Atómstöðinni, Brekkukotsannál og Kristnihaldi undir Jökli. Halldór leyfði sér auðvitað ýmislegt óhefðbundið og hafði gaman af að ögra lesendum með málnotkun sinni. En stigbreytingin virðist ekki hafa breiðst mikið út – í meginhluta þeirra u.þ.b. sextíu dæma sem eru um hana í Risamálheildinni er hún notuð í gamni, eða verið að gera grín að henni. Það gildir ekki síður um texta úr óformlegu máli samfélagsmiðla og sýnir að stigbreytingin fellur yfirleitt ekki að málkennd málnotenda. Mér finnst því engin ástæða til að ýta undir hana eða mæla með henni þótt vissulega kæmi sér oft vel að geta stigbreytt hissa.