Nýr beygingarflokkur: líðan – líðan – líðan – líðunar

Áðan var hér spurt hvort tala ætti um líðun eða líðan og segja t.d. óska þér betri líðunar. Báðar myndirnar eru vissulega til, þótt í Íslenskri orðabók sé sú fyrrnefnda merkt „fornt/úrelt“ og í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls standi við hana „Orðið er úrelt“. Þegar ég fór að hugsa um þetta áttaði ég mig á því að þótt ég myndi örugglega tala um góða líðan finnst mér eðlilegt að óska góðrar líðunar – sem sé, hafa -un(ar) í eignarfalli en -an annars. Þetta samræmist ekki þeirri beygingu sem er gefin upp í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls – þar er gert ráð fyrir að sama sérhljóðið haldist í viðskeytinu í allri eintölunni og beygingin því líðan – líðan – líðan – líðanar og líðun – líðun – líðun – líðunar. Sama segja beygingafræðibækur.

Þegar ég fór að skoða tíðni beygingarmynda nokkurra orða sem hafa tvímyndir af þessu tagi á tímarit.is og í Risamálheildinni kom í ljós að ég er ekki einn um áðurnefnda tilfinningu. Út frá tíðni mismunandi mynda er nefnilega ekki hægt að álykta annað en að í máli flestra séu orðið líðun / líðan og samsetningar af þeim, vellíðun / vellíðan, vanlíðun / vanlíðan og samlíðun / samlíðan, með -an í nefnifalli, þolfalli og þágufalli, en breyti því í -un(ar) í eignarfalli – beygingin er þá líðan – líðan – líðan – líðunar. Sama virðist gilda um ýmis önnur orð sem hafa tvímyndir af þessu tagi þar sem -an-myndin er notuð eitthvað að ráði, svo sem áeggjun/-an, eftirgrennslun/-an, skipun/-an o.fl., þótt hlutföllin séu dálítið mismunandi milli orða.

Hér má taka dæmi af vellíðun/-an og vanlíðun/-an. Sé lagður saman fjöldi dæma um myndirnar vellíðun og vellíðan er hlutfall þeirrar fyrri aðeins 1,4% á tímarit.is og 0,7% í Risamálheildinni, en af samanlögðum dæmafjölda um eignarfallsmyndirnar vellíðunar og vellíðanar er hlutfall þeirrar fyrrnefndu 86,2% á tímarit.is og 87,4% í Risamálheildinni. Ef við leggjum saman fjölda dæma um myndirnar vanlíðun og vanlíðan er hlutfall þeirrar fyrri 0,6% á tímarit.is og 0,3% í Risamálheildinni, en af samanlögum dæmafjölda um eignarfallsmyndirnar vanlíðunar og vanlíðanar er hlutfall þeirrar fyrrnefndu 78% á tímarit.is og 77,9% í Risamálheildinni. Þarna er ótrúlega gott samræmi milli textasafnanna tveggja þótt samsetning þeira sé mjög ólík.

Í fornu máli höfðu kvenkynsorð með viðskeytinu -un yfirleitt endinguna -an(ar) í eignarfalli eintölu – beygingin var því skipun – skipun – skipun – skipanar. Mörg þessara orða gátu fengið -an í nefnifalli, þolfalli og þágufalli eintölu vegna áhrifsbreytinga. Þannig urðu til tvímyndir og í sumum tilvikum varð -an-myndin aðalmynd orðsins, um tíma a.m.k., en margar -an-myndir eru nú að mestu horfnar úr málinu. Í Íslenzkri málmyndalýsingu frá 1861 segir Halldór Kr. Friðriksson: „Í flestum þeim kvennkynsnöfnum, sem áður höfðu afleiðsluendinguna an, hefur a breyzt í u í gjör., þol. og þiggj. eint. […] og í sumum þeirra helzt þetta u einnig í eig. eint., t.a.m. skipun (áður skipan), skipunar; […] viðvörun (áður viðvaran), viðvörunar […].“

Orðalagið „í sumum þeirra“ bendir til þess að eignarfallið -an(ar) hafi í einhverjum tilvikum haldist í orðum sem höfðu -un í öðrum föllum eintölu – beygingin hefur þá verið eins og í fornu máli, með -un í nefnifalli, þolfalli og þágufalli en -an í eignarfalli. Það er mjög athyglisvert vegna þess að nú virðist þetta alveg hafa snúist við – -an-orðin fá langoftast -un(ar) í eignarfalli. En e.t.v. hefur þetta lengi verið eins og tölurnar að framan sýna – höfundar eldri málfræðibóka höfðu ekki tíðnikannanir til að styðjast við og hafa fremur hugsað þetta út frá kerfinu og talið eðlilegt að sama sérhljóðið héldist í allri eintölunni. Mér sýnist hins vegar ljóst að eðlilegt sé að búa til nýjan beygingarflokk fyrir -an-orðin, þar sem þau fá -un(ar) í eignarfalli við hlið -an(ar).