Afturbeygt fornafn eða persónufornafn?

Í ályktun sem samþykkt var á fundi kennara í Reykjavík í gær segir: „Kennurum í Reykjavík finnst borgarstjóri hafa vegið að starfsheiðri sínum.“ Sumum finnst að þarna hefði frekar átt að nota persónufornafnið þeirra en afturbeygða (eignar)fornafnið sínum og segja starfsheiðri þeirra vegna þess að sínum geti vísað til borgarstjórans sjálfs – sem er formlega séð rétt. Í þessu tilviki er um að ræða vísun úr nafnháttarsetningu í frumlag aðalsetningar, kennurumkennurum finnst [borgarstjóri hafa vegið að starfsheiðri sínum]. Slík vísun er að jafnaði möguleg úr nafnháttarsetningum og úr skýringarsetningum (-setningum) og spurnarsetningum með viðtengingarhætti – kennurum finnst [að borgarstjóri hafi vegið að starfsheiðri sínum].

Ef framsöguháttur er í aukasetningunni getur afturbeyging í henni hins vegar ekki vísað til frumlags aðalsetningar – ef sagt er kennurum er ljóst [að borgarstjóri hefur vegið að starfsheiðri sínum] er ekki hægt að túlka það öðruvísi en svo að átt sé við starfsheiður borgarstjóra. Í þættinum „Íslenskt mál“ í Morgunblaðinu 2005 setti Jón G. Friðjónsson fram „tvær þumalputtareglur“ um vísun úr fallsetningu (- eða hv-setningu) í aðalsetningu: „Ef viðtengingarháttur er í fallsetningu er notuð afturbeyging“ og „Ef framsöguháttur er í fallsetningu er notað persónufornafn“. Jón segir að dæmi um persónufornafn í fallsetningu með viðtengingarhætti „samræmist ekki málvenju“ og fleiri dæmi eru um að því sé haldið fram.

Í kverinu Gætum tungunnar frá 1984 eru tvö dæmi sem þetta varða: „Sagt var: Geir sagði að afstaða hans kæmi í ljós síðar. RÉTT VÆRI: Geir sagði að afstaða sín kæmi í ljós síðar“ og „Sagt var: Foringinn neitaði að hermenn undir hans stjórn hefðu verið að verki. RÉTT VÆRI: … að hermenn undir sinni stjórn …“ Þótt ekki sé sagt berum orðum að notkun persónufornafnsins hans í aukasetningunum – sem báðar eru í viðtengingarhætti – sé „röng“ er ekki hægt að túlka áhersluna á að afturbeyging sé „rétt“ á annan hátt. Þarna virðist sem sé litið svo á, eins og Jón G. Friðjónsson gerir, að viðtengingarhátturinn krefjist afturbeygingar og leyfi ekki persónufornafn en framsöguhátturinn krefjist persónufornafns og leyfi ekki afturbeygingu.

Í umræðu um sambærilega setningu í Gætum tungunnar („Bílstjórinn sagði að sér/honum hefði tekist að aka þessa leið“) sagði höfundur kversins, Helgi Hálfdanarson: „Í þessu sambandi er afturbeygða fornafnið nákvæmara en hitt; þar tæki það af öll tvímæli, en persónufornafnið ekki. Það hlýtur að teljast æskilegt, að málnotkun sé sem skýrust, sé sem mest án tvímæla, en óæskilegt að hún sé loðin og ómarkvís. […] Og það sem í því tilliti er æskilegt, hika ég ekki við að kalla rétt.“ Það er samt löng hefð fyrir notkun persónufornafns í setningum eins og „sagt var“-dæmunum – í  Íslenzkri setningafræði Jakobs Jóh. Smára frá 1920 segir: „Í fornmálinu var oftast notað persónuforn. í aukasetningum, þegar vísa átti til frumlags aðalsetningar […].“

Það eru því engar forsendur fyrir því að kalla notkun persónufornafns frekar en afturbeygingar í setningum með nafnhætti eða viðtengingarhætti ranga – þarna eiga málnotendur einfaldlega val og það er engin nýjung. Þetta val getur vissulega leitt til tvíræðni – Jakob Jóh. Smári segir: „Í aukasetningum vísar afturb. forn. oftast til frumlags aukasetningarinnar […] en þar eð það getur og vísað til frumlags aðalsetningarinnar, verður málsgreinin stundum tvíræð (t.d. Árni spurði Bjarna, hvort hann hefði komið heim til sín) […].“ Oftast er samt vísunin ljós af samhenginu. Í dæminu sem vitnað var til í upphafi væri ansi langsótt túlkun sem jaðraði við útúrsnúning að halda því fram að kennarar telji borgarstjóra hafa vegið að eigin starfsheiðri.