Orðræðugreining er mikilvæg
Á ráðstefnu Sambands íslenskra sveitarfélaga fyrir helgi sagði borgarstjóri: „Mér finnst einhvern veginn öll statistík til dæmis bara um skólana okkar benda til þess að við séum að gera eitthvað algjörlega vitlaust. Að kennararnir séu að biðja um það að fá að vera minna með börnum en eru samt veikari en nokkru sinni fyrr og kenna minna og fleiri einhverjir undirbúningstímar.“ Það er erfitt að skilja þetta öðruvísi en sem dylgjur í garð kennara um vinnufælni og jafnvel vinnusvik, enda hafa margir kennarar mótmælt þessum orðum harðlega. Borgarstjóri reyndi að bregðast við óánægju þeirra með greininni „Kæru kennarar“ á Vísi í gær, en mér sýnist að sú grein hafi frekar hellt olíu á eldinn en lægja öldurnar. Sem von er.
Í fyrsta lagi er þar reynt að drepa málinu á dreif – tala um eitthvað allt annað en það sem olli óánægjunni („Aðgerðir undanfarinna ára“, „Breyttur veruleiki skólakerfisins“, Einhversstaðar verður umræðan að byrja“, „Mannanna verk“). Í öðru lagi er nefnt að ummælin hafi verið óundirbúin og gefið í skyn að þau hafi verið slitin úr samhengi („Í óundirbúinni ræðu minni“, „Á myndbandið vantaði byrjunina á ræðu minni“). Í þriðja lagi er sagt eða látið að því liggja að ummælin hafi verið misskilin eða rangtúlkuð („sjónarmið mín hafa ekki komist nægilega vel á framfæri“). Í fjórða lagi er beðist afsökunar á þeim viðbrögðum sem ummælin ollu en ekki á ummælunum sjálfum („mér þykir leitt að þið hafið túlkað orð mín þannig“).
Það er því miður ákaflega sjaldgæft að fólk í áhrifastöðum biðjist einlæglega afsökunar á mistökum sínum og viðurkenni þau – það er eins og fólk hræðist það og telji það vera álitshnekk fyrir sig. En ástæðan fyrir því að ég skrifa um þetta hér er sú að grein borgarstjóra er frábært kennsluefni um mikilvægi orðræðugreiningar – hún er skólabókardæmi um viðbrögð þeirra sem vita sig hafa gert mistök og eru að reyna að klóra í bakkann en sökkva í staðinn dýpra í forina. Á tímum falsfrétta og upplýsingaóreiðu, með kosningar í nánd, er mjög mikilvægt fyrir okkur, almenna málnotendur, að skoða orðræðu stjórnmálafólks með gagnrýnu hugarfari og átta okkur á því hvernig reynt er að nota tungumálið til að slá ryki í augun á okkur og afvegaleiða okkur.