Bilaðslega gott orð
Áðan sá ég fyrirsögnina „Ég læt mig dreyma og hlakka bilaðslega til“ á vef Ríkisútvarpsins. Ég hef vissulega heyrt atviksorðið bilaðslega áður en mundi ekki til að hafa séð það fyrr í rituðu máli. Á tímarit.is fundust þó tíu dæmi um orðið, það elsta í Monitor 2010: „Útúrdópaði mörðurinn var bilaðslega sætur.“ Í Risamálheildinni eru dæmin tæplega fjögur hundruð – langflest af samfélagsmiðlum en þó tæp fjörutíu af vef- og prentmiðlum. Elsta dæmi af samfélagsmiðlum er „svo er hann bilaðslega listrænn“ á Bland.is 2004. Þar sem orðið kemur fyrst fyrir þá þrátt fyrir að textar af samfélagsmiðlum nái allt aftur til ársins 2000 má leiða líkur að því að orðið hafi verið mjög nýlegt 2004 og sé því um það bil tuttugu ára gamalt í málinu.
Notkun hvorugkynsmynda lýsingarorða í stöðu atviksorða í samböndum eins og geggjað gott og geðveikt flott er alþekkt og hefur tíðkast í a.m.k. aldarfjórðung. „Fjölmörg […] orð í nútímamáli hafa nánast glatað eigin merkingu en hafa þess í stað fengið það sem kalla má hlutverksmerkingu eða ákvæðismerkingu“ segir Jón G. Friðjónsson. Sama grunnmerking getur falist í lýsingarorðinu bilaður og hvorugkyn þess hefur líka lengi verið notað á sama hátt – „það segja allir að þetta sé bilað skemmtilegt“ segir á Hugi.is 2002, „Er líka bilað stressuð út af vinnunni“ segir á Bland.is 2003. Þessa notkun má finna víðar en á samfélagsmiðlum – „Bilað fyndið!“ segir í DV 2010, „Þetta Íslandsmet er bilað gott“ segir í Morgunblaðinu 2016.
Þessi notkun hvorugkynsins bilað sem atviksorðs virðist vera eldri en atviksorðið bilaðslega enda eðlilegt að líta svo á að hvorugkynið liggi til grundvallar atviksorðinu. Tengsl orðanna sjást glöggt í íþróttafrétt í Fréttablaðinu 2013 þar sem haft er eftir knattspyrnumanni: „Það er ekki eins og við séum bilað reyndir í Evrópukeppni“ en millifyrirsögn í fréttinni er „Ekki bilaðslega reyndir“. Væntanlega kemur myndin bilaðslega til af því að málnotendum finnst þurfa að einkenna orðið betur sem atviksorð og bæta því hinni dæmigerðu -lega-endingu atviksorða við. Hugsanlegt er að líta á s-ið á orðhlutaskilunum sem eignarfallsendingu hvorugkynsmyndarinnar bilað en líklegra er þó eðlilegra að líta á það sem tengihljóð þarna.
Endingin -leg(a) er líka dæmigerð ending lýsingarorða og oftast eru til samsvarandi atviksorð og lýsingarorð með henni, enda má finna fáein dæmi um lýsingarorðið bilaðslegur sem líklega er myndað af atviksorðinu frekar en öfugt. Á Bland.is 2004 segir: „Talandi um bilaðslega hræðslu.“ Í Skessuhorni 2019 segir: „Pabbi er með bilaðslegt hlaupablogg.“ En einnig má finna fáein dæmi um atviksorðsmyndina bilæðislega. Á Málefnin.com 2005 segir: „allir hérna sem þykjast vera svona bilæðislega pólitískir og málefnalegir hvar eru þeir?“ Á twitter 2017 segir: „Þetta eru alveg bilæðislega flottar myndir sem þú ert að gera.“ Líklega liggur beinast við að líta á myndina bilæðislega sem einhvers konar samslátt á bilaðslega og æðislega.
Fólk getur auðvitað haft mismunandi skoðanir á þessari málnotkun – bæði á notkun hvorugkynsmynda lýsingarorða eins og geggjað, geðveikt og bilað í stöðu atviksorða til áherslu, og á myndun og notkun atviksorða eins og bilaðslega (og bilæðislega). Vitanlega er þetta upprunnið í óformlegu máli og trúlegt að mörgum finnist það eingöngu eiga heima þar, þótt það hafi reyndar sést nokkuð á prenti á síðustu tíu árum. En rétt er að hafa í huga að merking áhersluorða hefur tilhneigingu til að dofna með tímanum og þess vegna eru alltaf að verða til ný og ný áhersluorð – „Svo virðist sem hver kynslóð komi sér upp eigin orðaforða af þessum toga“ segir Jón G. Friðjónsson. Mér finnst ástæðulaust að ergja sig yfir þessu.