Andvaraleysi er varasamara en enskættað orðalag

Í frétt á vef Ríkisútvarpsins í gær sagði: „Næfurþunnur meirihluti virðist vera fyrir tillögu um að aðild að Evrópusambandinu verði fest í stjórnarskrá landsins.“ Ég mundi ekki eftir að hafa séð þetta orðalag áður en fann fáein dæmi um það á netinu, það elsta í Morgunblaðinu 2008: „eftir tímabil brothætts og næfurþunns meirihluta vinstrimanna undanfarin ár.“ Í fyrirsögn á Vísi 2018 segir: „Þunnur meirihluti hjá Netanjahú“ og í fréttinni segir „er meirihluti ríkisstjórnarinnar á þingi orðinn ansi þunnur“. Í Viðskiptablaðinu 2019 segir: „skv. BBC er um næfu þunnan [svo] meirihluta að ræða.“ Nokkur dæmi eru í Kjarnanum 2021, m.a. „Það gæti dugað til þess að flokkarnir nái næfurþunnum meirihluta eftir kosningar.“

Varla leikur vafi á að þetta orðalag er ættað úr ensku – þar er talað um thin majority og í mörgum erlendum fréttum af atkvæðagreiðslunni sem fjallað var um í fréttinni sem vísað var til í upphafi er einmitt notað orðalagið razor-thin majority / margin. Vitanlega er ekkert að því að þýða razor-thin sem næfurþunnur – það er einmitt mjög góð þýðing, margfalt betra en orðrétta þýðingin *rakhnífsþunnur. Og vitanlega er (næfur)þunnur meirihluti íslenska – orðin eru íslensk og sambandið brýtur engar reglur málsins. Það er bara ekki venja að orða þetta svona á íslensku, heldur tala um nauman meirihluta, og mjög nauman ef ástæða þykir til – ég hef líka séð orðalagið örnauman meirihluta. Í fyrirsögn fréttarinnar er reyndar talað um nauman sigur.

En þótt (næfur)þunnur meirihluti eigi sér fyrirmynd í ensku, og hefð sé fyrir að nota annað orðalag í þessari merkingu í íslensku, er það ekki næg ástæða til þess að hafna þessu orðalagi eða fordæma það. Mikill fjöldi íslenskra orðasambanda sem nú þykja góð og gild á sér erlendar fyrirmyndir án þess að við áttum okkur á því. Endurnýjun og nýsköpun er málinu nauðsynleg og ekkert að því að koma með ný orðasambönd og nýjar líkingar, jafnvel þótt kveikjan sé erlend. Það skiptir hins vegar máli að einhver hugsun sé að baki – að erlent orðalag sé ekki yfirfært hugsunarlaust. Stærsta ógnin sem steðjar að íslenskunni um þessar mundir er nefnilega ekki ensk áhrif út af fyrir sig, heldur andvaraleysi gagnvart áhrifum og þrýstingi enskunnar.