Að elska fast
Um daginn var spurt um það í Málvöndunarþættinum hvort rétt væri að tala um að elska fast. Flestum fannst þetta fráleitt en einn þátttakenda í umræðunni sagðist hafa séð það nýlega í bók. Í Risamálheildinni má finna um fimmtíu dæmi um þetta samband, öll af samfélagsmiðlum nema eitt: „frænka var glæsileg og hjartahlý manneskja sem elskaði fast og innilega“ í Morgunblaðinu 2021. Elstu dæmin eru frá 2008: „Eins gott að þau elskist ekki fast“ og „Ég elska þig, fast!“ á Bland.is og „ég elska þig svo fast“ á Hugi.is. Flest dæmin um þetta eru þó á twitter frá síðustu fimm árum, þar á meðal þessi tvö frá 2021: „Er eg su eina sem finnst “elska svo fast” bara ekki meika sens?“ og „Skrítnasta málfarstrendið þessa dagana finnst mér „að elska svo fast“.“
Þessar athugsemdir benda til þess að sambandið elska fast sé orðið nokkuð útbreitt en sýna jafnframt að það fellur ekki öllum í geð. Það er eðlilegt þar sem um nýjung er að ræða, en elska fast er samt ekki endilega merkingarlega fráleitt. Atviksorðið fast getur merkt 'af ákefð' eða 'alveg eindregið' eins og í drekka fast, sækja fast, horfa fast á, standa fast á, leggja fast að einhverjum o.fl. Merking orðsins í elska fast er svipuð og í þessum samböndum og þess vegna er ekki hægt að halda því fram að sambandið sé „órökrétt“ á nokkurn hátt. Ekki er gott að segja hvers vegna farið er að nota fast með sögninni elska en hugsanlegt er að þar spili inn í áhrif frá öðrum samböndum á sama merkingarsviði, svo sem kyssa fast og knúsa fast.
Það hvaða atviksorð er notað með tiltekinni sögn fer ekki bara eftir merkingu orðanna heldur einnig og ekki síður eftir hefð. Þótt merkingarlega sé í sjálfu sér ekkert síðra að nota atviksorðið fast en atviksorðið heitt með sögninni elska er hefð fyrir því síðarnefnda en ekki því fyrrnefnda. Sambandið elska fast er nýlegt og enn fremur sjaldgæft og þess vegna mæli ég með því að við höldum okkur við hefðina. En hefðir af þessu tagi geta breyst, og það væru engin málspjöll þótt elska fast breiddist út og yrði viðtekin málnotkun. Til gamans má reyndar nefna að þótt stutt sé síðan elska fast fór að heyrast kemur það fyrir í kvæði frá miðri sautjándu öld eftir séra Stefán Ólafsson í Vallanesi – „Ingunni gerði hann elska fast / áður en hún lét fallerast.“