Stórort hrós

Á vefnum fótbolti.net var í gær fyrirsögnin „Stórorð í garð Sveindísar – „Er að komast í heimsklassa““. Eins og seinni hluti fyrirsagnarinnar bendir til vísar fyrri hlutinn til þess að Sveindísi hafi verið hrósað, og í innleggi hér áðan var spurt: „Er þetta ekki óvenjulegt um hrósyrði?“ Ég tók undir það og benti á að í Íslenskri orðabók er lýsingarorðið stórorður skýrt 'sem notar stór, þung orð, gífuryrtur' eða 'skömmóttur' – í Íslenskri nútímamálsorðabók er það skýrt 'sem notar stór og gróf orð'. Ég fékk samt bakþanka og fór að velta því fyrir mér hvort stórorður væri alltaf neikvætt orð og hvort stór orð væru alltaf neikvæð, eða hvort hægt sé að vera stórorður á jákvæðan hátt, eins og orðið er notað í umræddri fyrirsögn.

Í fornu máli virðist stórorður merkja 'yfirlætislegur' eða eitthvað slíkt – ‚er hovmodig i sine Udtalelser‘ segir í Ordbog over det gamle norske Sprog eftir Johan Fritzner. Í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 er orðið skýrt 'som bruger store ord; stortalende' en stortalende merkir 'som praler, overdriver eller virker selvhævdende', þ.e. 'sem gortar, ýkir eða virkar sjálfbirgingslegur'. Samkvæmt þessum skýringum virðist orðið helst vísa til þess að 'taka stórt upp í sig' eða 'taka djúpt í árinni' og sú er t.d. merkingin í „Hann vill þó ekki vera stórorður um framtíðina, enn sem komið er“ á vef Ríkisútvarpsins 2021. Stóru orðin þurfa ekki endilega að vera gróf eins og skýringar nútímamálsorðabókanna benda til, þótt svo sé vissulega oft.

Í Skírni 1936 segir Einar Ólafur Sveinsson: „skrásetjarinn segir þá jarteikn mjög gætilega, en gefur í skyn, að sumir séu stórorðari í lofi um hana, og að svo mundi vera í útlendum jarteiknabókum.“ Hér er stórorður augljóslega notað á jákvæðan hátt í merkingunni 'taka djúpt í árinni', og mér finnst þetta ekkert óeðlilegt. Hins vegar sé ég ekki betur en sambandið stórorður í garð sé ævinlega notað neikvætt – í því felist alltaf einhvers konar ádeila eða árás en aldrei hrós. Niðurstaðan er því sú að fyrirsögn eins og Stórorð í hrósi um Sveindísi hefði samrýmst íslenskri málhefð – og jafnvel Stórorð um Sveindísi í jákvæðri merkingu ef „Er að komast í heimsklassa“ fylgdi á eftir – en fyrirsögnin eins og hún er á fótbolti.net geri það ekki.