Nýyrði í stað tökuorðs: skriðdreki
Ég skrifaði hér fyrr í dag um tökuorðið tank sem í Íslenskri orðsifjabók er talið komið úr ensku en líklega í gegnum dönsku. En í ensku hefur orðið ekki bara merkinguna 'stórt lokað ílát undir vökva' eins og í íslensku, heldur líka merkinguna 'skriðdreki'. Sú merking orðsins er mun yngri, frá 1916, en runnin frá hinni merkingunni – hvernig það gerðist er áhugaverð saga sem ekki á heima hér en er rakin í greininni „Skriðdrekar. Hvernig „tankarnir“ hluti sína nafngift“ í Sjómannablaðinu Víkingi 1959. En í fyrstu var orðið líka notað í þessari merkingu í íslensku og elstu dæmi í málinu um báðar merkingar eru jafngömul. Í Morgunblaðinu 1916 segir: „Jörðin er sem eitt forarfen, og jafnvel „tank“-bifreiðarnar hafa ekki getað aðhafst neitt verulegt.“
Orðið tank var oft notað í þessari merkingu í íslenskum blöðum – framan af gjarna innan gæsalappa. Í Morgunblaðinu 1917 segir: „Hollendingar eru nú farnir að smíða sér brynvarðar bifreiðar eftir fyrirmynd brezku „tankanna“ og „Segir í erlendum blöðum að tankarnir hafi orðið Bretum að ómetanlegu gagni. Þjóðverjar hafi allsstaðar hlaupist á brott, er þeir sáu tankana koma.“ (Í sömu frétt er þó notuð ensk fleirtölumynd: „Þá óku 12 tanks af stað úr herbúðum Breta.“) Í Alþýðublaðinu 1920 segir: „Tankar notaðir til að moka snjó af vegum. Hinar ægilegu vígvélar tankarnir eru nú notaðir til friðsamlegri vinnu í Frakklandi en í stríðinu.“ Í Vísi 1929 segir: „Höfðu þeir þá flutt austur eftir flugvélar, tanka og önnur nýtísku hernaðartæki.“
En fljótlega fóru að koma fram ýmsar íslenskar samsvaranir. Í Heimskringlu 1917 segir: „Bretar hafa skriðdreka sína hina stóru – tanks – sem ekkert hefur unnið á enn þá.“ Í Morgunblaðinu 1917 segir: „Í orustum […] seinni hluta sumarsins, hafa Bretar óspart teflt fram hinum miklu „bryndrekum“, „the tanks“.“ Í Heimskringlu 1918 segir: „Kaledín foringja hefur verið líkt við brynreið (tank). Í Vísi 1918 segir: „Landbryndrekinn „The Tank“ veltir sér áfram yfir skotgrafir.“ Í Vestra 1918 segir: „Nokkrum metrum handar situr enskur brynbarði (tank) fastur.“ Í Heimskringlu 1927 segir: „flugvélin, gasið, járndrekinn, sem kallaður er “tank” og neðansjávarbáturinn.“ Í Lesbók Morgunblaðsins 1931 segir: „Nýjasti landdrekinn (tank).“
Þarna eru ýmis ágæt orð – bryndreki, brynbarði (bæði orðin voru fyrir í málinu í merkingunni 'brynvarið herskip'), landbryndreki, brynreið (sem kemur fyrir í fornu máli), járndreki, landdreki – en elsta orðið, skriðdreki, er það eina sem hefur lifað, enda mjög lýsandi orð. Það er áhugavert hvernig örlög orðsins tank sem kom inn í málið í tveimur merkingum á sama tíma hafa orðið mismunandi eftir merkingu. Í annarri merkingunni helst orðið sem tökuorð og aðlagast hljóð- og beygingakerfi málsins með tímanum, en fyrir hina merkinguna eru búin til ýmis nýyrði (eða nýmerkingar) sem eru notuð jöfnum höndum fyrstu árin en fljótlega – þegar um 1930 – vinnur eitt þeirra afgerandi sigur. En bæði tökuorðið og nýyrðið eru ágætis orð.
Það er í sjálfu sér eðlilegt – og heppilegt – að mismunandi orð skulu hafa verið valin fyrir mismunandi merkingar tökuorðsins tank. Hins vegar má spyrja hvers vegna orðið hafi haldið sér í merkingunni 'stórt lokað ílát undir vökva' en nýtt orð – eða ný orð – komið í staðinn í merkingunni ‚'brynvarið ökutæki á skriðbeltum, búið til hernaðar með öflugum byssum' eins og orðið er skýrt í Íslenskri nútímamálsorðabók. Hugsanlega hefur það haft áhrif að danska notaði ekki tank í þessari merkingu en danska orðið, kampvogn, er þó óskylt því íslenska. Í enskri bók frá 1919 um uppruna skriðdreka þar sem enska heitið tank er skýrt segir reyndar „the name has now been adopted by all countries in the world“ sem er augljóslega ekki rétt.