Út í öfga(r)
Í Málvöndunarþættinum var spurt hvort ætti að segja öfgarnar eða öfgarnir, þ.e. hvort orðið öfgar væri kvenkyns- eða karlkynsorð. Orðið er venjulega aðeins í fleirtölu en á tímarit.is má þó finna tvö dæmi um eintöluna öfg – „Ein öfgin býður annarri heim“ í Tímanum 1962 og „Hin öfgin er sú“ í Alþýðublaðinu 1968. Allar orðabækur segja orðið kvenkynsorð en bæði í Íslenskri orðabók og Íslenskri orðsifjabók kemur þó fram að staðbundin dæmi séu um karlkynið. Jón G. Friðjónsson segir þó í þættinum „Íslenskt mál“ í Morgunblaðinu 2006 „ljóst að kk.-myndirnar hafa ekki náð að festa rætur“ og við þeim er líka varað í Málfarsbankanum: „Nafnorðið öfgar er kvenkynsorð í fleirtölu. Þetta gengur út í öfgar (ekki „öfga“). Þau ræddu málin án öfga.“
Nefnifallið öfgar gæti verið hvort heldur sem er karlkyns- eða kvenkynsorð, og sama má segja um þágufallið öfgum og eignarfallið öfga – einnig með greini, öfgunum og öfganna. Það er bara í þremur beygingarmyndum sem munur kynjanna kemur fram. Í nefnifalli með greini er karlkynið öfgarnir en kvenkynið öfgarnar, og í þolfalli er karlkynið öfga og öfgana en kvenkynið öfgar og öfgarnar. Vegna þessa mikla samfalls er iðulega óljóst í hvaða kyni verið er að nota orðið, þótt oft sé vissulega hægt að ráða það af meðfylgjandi fornafni eða lýsingarorði (þessar öfgar kvk., miklir öfgar kk.). Hljóðasambandið -öfg- kemur líka fyrir bæði í karlkyni, eins og í höfgi, og kvenkyni, eins og í göfgi – hvorugt þeirra orða er reyndar notað í fleirtölu.
Fáein gömul dæmi má finna um karlkynsmyndir orðsins, það elsta í Lögbergi 1906: „Vér verðum að bíða rólegir átekta, forðast öfga og árásir.“ Í Austra 1911 segir: „Við öfgana kannast hann sjálfur.“ Í Vestra 1912 segir: „Grein þessari hefir verið svarað af ýmsum Vestur-Íslendingum sem hingað komu í sumar, er telja greinina fara með öfga.“ Í Heimskringlu 1920 segir: „afturhaldið togar í á aðra hliðina en öfgarnir á hina.“ Í Tímariti íslenzkra samvinnufélaga 1924 segir: „Öfgarnir voru hins vegar afsakanlegir.“ Í Bréfum og ritgerðum Stephans G. Stephanssonar má finna bæði „Þrátt fyrir alla öfga, gera þeir stundum við, þar sem hinir ganga frá“ og „eitthvað, sem ég aðeins sagði sem alvörulausa öfga, til að ofbjóða öðrum“.
Vegna þess hve margar beygingarmyndir falla saman og stofngerðin sker ekki úr um kynið er ekki undarlegt að kyn öfga sé á reiki. Við það bætist að fleirtöluendingin -ar er dæmigerðari fyrir karlkyn en kvenkyn svo að búast mætti við því að karlkynið sækti á – og sú virðist vera raunin. Í Risamálheildinni að frátöldum samfélagsmiðlum eru rúm 800 dæmi um nefnifalls- og þolfallsmyndina öfgarnar – fjórtán sinnum fleiri en samtals um samsvarandi karlkynsmyndir, öfgarnir og öfgana. En í samfélagsmiðlahlutanum eru um 350 dæmi um karlkynsmyndirnar en aðeins helmingi fleiri, um 700, um kvenkynsmyndina. Þetta bendir til þess að í óformlegu málsniði sé öfgar á hraðri leið yfir í karlkyn. Ég sé ekki neina ástæðu til að ergja sig yfir því.