Reikistefna

Orðmyndin reikistefna sem oft er notuð í stað rekistefna hefur stundum verið til umræðu hér og í öðrum málfarshópum. Nafnorðið rekistefna er skýrt 'mikið vesen, mikið mál' í Íslenskri nútímamálsorðabók og 'afskipti, íhlutun, rex' í Íslenskri orðsifjabók þar sem það er talið frá 18. öld og sagt „efalítið“ skylt sögninni reka og nafnorðinu rek í merkingunni 'það þegar e-ð rekur (fyrir straumi, á hafi)'. Elsta dæmi um orðið í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans er úr Ferðabók Tómasar Sæmundssonar frá fjórða áratug nítjándu aldar: „Fékk eg þó áður lauk kátliga rekistefnu.“ Á tímarit.is eru tæp 1700 dæmi um orðið sem var algengt á seinasta hluta nítjándu aldar og alla tuttugustu öld en hefur heldur farið dalandi á þessari öld.

En myndin reikistefna er ekki ný – elsta dæmi um hana er í Heimskringlu 1896: „Lýkur þar fyrsta kaflanum í þessari reiki-stefnu sögu.“ Næsta dæmi er svo ekki fyrr en í Alþýðublaðinu 1954: „kærði húsbændur sína fyrir svelti, og varð úr mikil reikistefna.“ Í Tímanum 1958 segir: „Annars er óþarfi að gera nokkra reikistefnu út af þessu.“ Í Tímanum 1959 segir: „Af þessu verður löng reikistefna og málaferli.“ Í Morgunblaðinu 1966 segir: „Varla þykir því að gera reikistefnu út af smámunum.“ Í Morgunblaðinu 1969 segir: „Við erum allir litaðir á einn eða annan hátt svo að hvers vegna er þá öll þessi reikistefna?“ Í Tímanum 1982 segir: „Við spurðum Guðmund um mál Haraldar Ólafssonar, sem nokkur reikistefna varð út af.“

Á tímarit.is eru tæp 40 dæmi um reikistefna og vegna þess að þau eru svo fá og dreifast yfir svo langan tíma er hægt að líta á þau sem tilviljanakennd frávik eða villur frekar en upphaf málbreytingar. Þetta virðist hins vegar vera að breytast ef marka má Risamálheildina sem inniheldur einkum texta frá þessari öld. Þar eru alls rúm 500 dæmi um rekistefna en 200 um reikistefna, þar af meginhlutinn úr vef- og prentmiðlum. Í samfélagsmiðlahlutanum sem endurspeglar óformlegt mál snýst hlutfallið við – þar eru 24 dæmi um rekistefna en 34 um reikistefna. Það er því ljóst að myndin reikistefna sækir mjög á, bæði í formlegu og óformlegu máli, og það skýrir að einhverju leyti dalandi tíðni myndarinnar rekistefna sem áður var nefnd.

Skýringin á myndinni reikistefna er sennilega sú að málnotendur tengi orðið við reik í merkingunni 'flakk, ráf' eins og í vera á reiki sem merkir 'vera óljóst' eða 'óstöðugt, breytilegt'. Það er merkingarlega eðlilegt og líklega gagnsærra en tengingin við rek sem er kannski ekki augljós. Þegar við bætist að framburðarmunur á rekistefna og reikistefna er mjög lítill er þetta eðlileg breyting, bæði hljóðfræðilega og merkingarlega. Svo getur fólk haft sínar skoðanir á því hvort hún sé óæskileg. Mér finnst hún skemmtileg vegna þess að hún sýnir hversu röklegar málbreytingar eru iðulega, andstætt því sem oft er talið – hvernig málnotendur leita (oftast ómeðvitað) að skýringum og hliðstæðum, og komast að niðurstöðu. Getur hún verið röng?