19% – eða hvað?
Í nýlegri skýrslu OECD um innflytjendur á Íslandi kemur fram að hlutfall þeirra innflytjenda sem telja sig vera fullfæra eða sæmilega færa í landsmálinu er lægra á Íslandi en í öllum öðrum löndum OECD – aðeins 19%. Í nýlegri grein í Vísi var þetta borið saman við um 95% í Portúgal, 85% í Ungverjalandi og tæp 80% á Spáni. Þar er vissulega sláandi munur, en nærtækara væri að bera Ísland saman við önnur Norðurlönd. Hlutfallið er tæp 45% í Finnlandi, tæp 50% í Danmörku, rúm 55% í Noregi og rúm 60% í Svíþjóð – meðaltal OECD er rétt tæp 60%. Þetta er ekki óeðlilegur munur í ljósi þess að í Noregi og Finnlandi er varið um fjórum sinnum meira opinberu fé á mann í tungumálakennslu innflytjenda og í Danmörku allt að tíu sinnum meira.
En hugsanlegt er að annað bætist við sem auki enn á þennan mun. Tölur um málakunnáttu eru ekki byggðar á neins konar samræmdum prófum, heldur á sjálfsmati innflytjenda eins og áður er nefnt („respondents who considered their Icelandic to be either “fluent” or “advanced”“). Þá má spyrja á hverju innflytjendur byggi mat sitt á eigin íslenskufærni. Það hlýtur að byggjast að einhverju leyti á reynslu þeirra, og fólks í kringum þá, af því að nota íslensku og viðbrögðum Íslendinga þegar þeir reyna að tala málið. Eins og hér hefur margoft verið nefnt skortir okkur þolinmæði gagnvart „ófullkominni“ íslensku, svo sem erlendum hreim, röngum beygingum og óvenjulegri orðaröð, og skiptum iðulega yfir í ensku ef viðmælandinn talar ekki kórrétt.
Vegna þessa er ekki ótrúlegt, þótt ekki sé hægt að fullyrða neitt um það, að margir innflytjendur meti íslenskukunnáttu sína lægra en ella – þótt þeir tali íslensku að einhverju marki finna þeir að Íslendingum finnst íslenskan þeirra ófullnægjandi og telja þá jafnvel alls ekki tala málið. Hugsanlegt er að innflytjendur í öðrum OECD-löndum, með sambærilega kunnáttu í tungumálum þeirra landa, mæti öðru viðmóti og meti þar af leiðandi kunnáttu sína hærra. Um þetta er ekkert hægt að fullyrða en viðbrögð Íslendinga gagnvart „ófullkominni“ íslensku eru þekkt og gefa ástæðu til að velta þessu fyrir sér. Þetta þyrfti vitanlega að rannsaka áður en farið er að tala um „það grátlega litla hlutfall útlendinga sem sér ástæðu til að læra íslensku“.
Það er ljóst að hvatinn til að læra íslensku hlýtur alltaf að verða minni en hvatinn til að læra tungumál stórþjóða, einfaldlega vegna þess að íslenska nýtist hvergi nema á Íslandi, og því er ekki líklegt að fólk vilji verja tíma og fé í íslenskunám nema það ætli sér að vera hér til frambúðar. Við það ráðum við ekki, en allt hitt sem veldur því að of fáir innflytjendur læra íslensku getum við ráðið við – ef við bara viljum. Við getum sett miklu meira fé í kennslu íslensku sem annars máls, við getum breytt hugarfari okkar og viðbrögðum gagnvart „ófullkominni“ íslensku, og við getum hætt að haga okkur eins og það sé allt í lagi að enska sé notuð við ýmsar aðstæður. Allt eru þetta Íslendingavandamál, ekki útlendingavandamál.