„Back to life, back to reality“

Starfsendurhæfingarsjóðurinn VIRK rekur nú auglýsingaherferð undir kjörorðinu „Er þinn vinnustaður klár í kombakk?“. Í frétt um herferðina segir: „Kyninningarherferðin [svo] hverfist um hugtakið „Kombakk“. Hjartað í herferðinni er […] hljómsveitin Retro Stefson, sem hefur gert sína útgáfu af sígildum danssmelli, Back to Life með Soul II Soul í tilefni af Kombakk-herferðinni.“ Sett hefur verið upp síðan kombakk.is þar sem textinn „Back to life, back to reality“ úr áðurnefndu lagi rúllar sífellt og gerðar hafa verið sjónvarpsauglýsingar með laginu sem eru að megninu á ensku – þessi texti sunginn hvað eftir annað en sáralítil íslenska er í auglýsingunum. Það er ljóst að meginboðskapur auglýsinganna á að felast í þessum enska texta.

Ljóst er að markhópur auglýsinganna er aðallega Íslendingar og því álitamál hvort þær samrýmast ákvæðum 6. greinar Laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu nr. 57/2005 þar sem segir: „Auglýsingar sem höfða eiga til íslenskra neytenda skulu vera á íslensku.“ En óháð því hvort þetta stenst lög eða ekki er þetta algerlega ótækt og til háborinnar skammar. Þarna er verið að höfða til Íslendinga með því að gera enskunni hátt undir höfði. Þetta er þeim mun alvarlegra sem aðstandendur VIRK eru m.a. ríki og sveitarfélög en í 5. grein Laga um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls nr. 61/2011 segir: „Ríki og sveitarfélög bera ábyrgð á að varðveita og efla íslenska tungu og skulu sjá til þess að hún sé notuð.“

Hvernig í ósköpunum stendur á því að íslensk samtök, sem m.a. opinberir aðilar standa að auk samtaka launafólks og atvinnurekenda, velja herferð sinni og vefsíðu enskt kjörorð og heiti? Hvernig í ósköpunum stendur á því að þessi samtök velja að koma boðskapnum fyrst og fremst á framfæri með texta á ensku? Hvernig í ósköpunum stendur á því að við látum þetta yfir okkur ganga? Það er ekki hægt að kalla þetta annað en fullkomna vanvirðingu við íslenskuna og íslenskan almenning. Það er ekki eins og það sé eitthvað flókið að finna íslenska samsvörun við kombakk, og fyrst verið er að kosta upp á að fá hljómsveit til liðs við herferðina hefði verið nær að fá hana til að semja nýjan íslenskan texta frekar en grafa upp 35 ára gamalt lag á ensku.

Íslenskan á í vök að verjast gagnvart ásókn ensku á öllum sviðum – enskunotkun í samfélaginu fer sívaxandi vegna mikils fjölda fólks af erlendum uppruna sem hér býr og starfar og vegna umfangs ferðaþjónustunnar þar sem enska er aðalmálið. Stafræn áhrif enskunnar gegnum netið, samfélagsmiðla, efnis- og streymisveitur o.fl. eru líka gífurlega mikil. Þess vegna kemur það úr hörðustu átt þegar samtök eins og VIRK leggja sitt af mörkum til að veikja varnir íslenskunnar með fullkomlega óþarfri, ástæðulausri og kjánalegri enskunotkun. Ég vonast til að VIRK sjái sóma sinn í því að breyta kjörorði herferðarinnar og heiti vefsíðunnar – og taka úr birtingu auglýsingar sem eru aðallega á ensku og gera auglýsingar á íslensku í staðinn.