Hvítabirnir og ísbirnir

Spendýrið ursus maritimus heitir á íslensku ýmist hvítabjörn eða ísbjörn – síðarnefnda orðið er komið af isbjørn í dönsku. Í viðtali í Fréttablaðinu 2011 segir Ævar Petersen dýrafræðingur: „Hvítabjörn er þekkt í íslensku að minnsta kosti frá 12. öld en ísbjörn kom fyrst fram í rituðu máli snemma á 19. öld og var í raun lítið sem ekkert notað fyrr en á 20. öld. Orðið bjarndýr var mikið notað á 19. öld um hvítabirni en það er núna yfirleitt haft sem almennt heiti yfir birni – hvíta, brúna og svarta.“ Það er rétt að elsta dæmi um ísbjörn er frá 1827, en allt frá því í lok nítjándu aldar hefur það verið mun algengara orð en hvítabjörn. Á tímarit.is eru rúm níu þúsund dæmi um fyrrnefnda orðið en tæp tvö þúsund og tvö hundruð um það síðarnefnda.

Þótt orðið ísbjörn eigi sér hliðstæðu í dönsku og sé sniðið eftir henni er það eftir sem áður vitanlega íslenskt orð – báðir orðhlutarnir, ís og björn, eru íslenskir. Merkingarleg tengsl orðhlutanna eru hliðstæð við tengslin í orðinu skógarbjörn sem kemur fyrir í fornu máli og engum dettur í hug að gera athugasemdir við – í báðum tilvikum er dýrið kennt við búsvæði sitt, ís eða skóg. Vegna þess að hvítabjörn kemur fyrir í fornu máli en ísbjörn er mun yngra í málinu finnst mörgum samt æskilegra að nota fyrrnefnda orðið, og það er í sjálfu sér ekkert við því að segja. Hins vegar ætti það að vera liðin tíð að orð mynduð úr íslensku hráefni sem falla fullkomlega að málinu séu litin hornauga og látin gjalda þess að eiga sér hliðstæðu í dönsku.