Frábær Skrekkur

Þriðja árið í röð hef ég nú setið þrjú kvöld í röð í Borgarleikhúsinu og horft á 25 atriði í undankeppni Skrekks, hæfileikakeppni grunnskólanna í Reykjavík. Ástæðan er sú að ég er í dómnefnd um „Skrekkstunguna“, íslenskuviðurkenningu keppninnar, sem ákveðið var í hitteðfyrra að taka upp vegna þess að aðstandendum fannst íslenska vera mjög á undanhaldi í keppninni og vildu reyna að snúa þeirri þróun við. Það hefur svo sannarlega tekist. Íslenska varð strax meira áberandi þegar viðurkenningin var fyrst veitt fyrir tveimur árum, hlutur hennar stækkaði enn töluvert í fyrra, og í ár fannst mér verða alger bylting. Sáralítið bar á ensku í keppninni – í langflestum atriðum var allur texti, talaður, sunginn og ritaður, á íslensku.

Í Skrekk er hin sjónræna hlið mjög mikilvæg en samt sem áður tókst sumum skólunum að hafa íslenskuna beinlínis í aðalhlutverki í atriðum sínum – lifandi, frjóa og skapandi íslensku. Það var einstaklega ánægjulegt að horfa og hlusta á þetta – en að sama skapi verður verkefni dómnefndarinnar, að velja sigurvegara, sérlega snúið. Það er samt tilhlökkunarefni vegna þess að við vitum að sigurvegarinn verður verðugur. Ég hvet ykkur til að horfa á úrslitakeppni Skrekks á mánudagskvöld í beinni útsendingu í Ríkissjónvarpinu – þá verður jafnframt tilkynnt hvaða skóli fær Skrekkstunguna. Frammistaða unglinganna gleður mann sannarlega á þessum annars dapra og drungalega degi og fyllir mann bjartsýni fyrir hönd íslenskunnar.