„Í öðrum og betra heimi“

Línurnar „ef andana langar í öl og vín / í öðrum og betra heimi“ er að finna í ljóðinu „Í bíl“ eftir Örn Arnarson. Nýlega var hér spurt hvort orðmyndin betra væri rétt. Þetta er eðlileg spurning – miðstig lýsingarorða í karlkyni er venjulega eins í öllum föllum í nútímamáli og það er eina beygingin sem gefin er upp í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls. Því hefði mátt búast við að þarna stæði betri heimi en ekki betra heimi. Samt sem áður er ljóst að betra heimi er hvorki prentvilla né einsdæmi – á tímarit.is eru alls tvö hundruð dæmi um það samband í þolfalli og þágufalli, dreifð yfir síðustu hálfa aðra öld. Um betri heimi eru aftur á móti 1.400 dæmi. Hundrað dæmi eru um eignarfallið betra heims, en tæp þrjú hundruð um betri heims.

Í fornu máli endaði nefnifall karlkynsorða í miðstigi á -i eins og í nútímamáli, en aukaföllin enduðu aftur á móti á -a – miðstigið af góður beygðist því betri – betra betra betra. Þetta fór að breytast á 16. öld og á 18. öld virðist beygingin að mestu komin í það horf sem algengast er í nútímamáli eftir því sem Björn Karel Þórólfsson segir í bókinni Um íslenskar orðmyndir á 14. og 15. öld og breytingar þeirra úr fornmálinu. Í Íslenzkri málmyndalýsingu frá 1861 segir Halldór Kr. Friðriksson: „Nú látum vjer öll föllin í eintölu í karlkyni endast á ari.“ Sama segir Valtýr Guðmundsson í Islandsk Grammatik frá 1922. Það virðist samt ljóst að eldri beygingin hefur alltaf lifað að einhverju leyti og hefur verið með töluverðu lífsmarki fram undir þetta.

Þarna er þó ýmislegt sem þyrfti að skoða nánar. Ekki er ótrúlegt að þetta sé misjafnt eftir lýsingarorðum, og eins virðist eldri beygingin í fljótu bragði vera hlutfallslega algengari í þágufalli en eignarfalli. En hvað sem því líður eru aukaföll með -a greinilega á undanhaldi. Í Risamálheildinni eru um 650 dæmi um sambandið betri heimi en aðeins átta um betra heimi, þar af þrjú úr textum frá því fyrir miðja síðustu öld – og hundrað dæmi um betri heims en sjö um betra heims. Vegna þess að betra í aukaföllum er hin forna beyging, sem virðist hafa lifað að einhverju marki og a.m.k. verið töluvert notuð undanfarna hálfa aðra öld, finnst mér samt ekki koma til greina að telja hana ranga þótt ekki sé ástæða til að mæla sérstaklega með henni.